Evrópuverkefni um lambakjöt. II - Skrokkmál og krufningar

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Stefán Sch. Thorsteinsson, Guðjón Þorkelsson, Óli Þór HilmarssonBÍ, LBH, RALA2000Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Ráðunautafundur2000231-236

ssch-ofl.doc

Til verkefnisins voru keypt lömb frá þremur bæjum, Þóroddsstöðum í Hrútafirði, Gunnarsstöðum í Þistilfirði og frá Tilraunabúi Rala að Hesti í Borgarfirði, 160 talsins frá hverju búi eða alls 480 lömb. Lömbunum var slátrað á þremur mismunandi sláturtímum, að hausti í hefðbundinni sláturtíð 1997, að sumri í júlí og ágúst 1998 og loks að vetri í desember 1998 og janúar 1999. Í haust- og sumarslátruninni var slátrað jafn mörgum lömbum af báðum kynjum frá hverjum bæ, en í vetrarslátruninni var eingöngu slátrað hrútlömbum. Lömbin voru ekki sérstaklega valin að öðru leyti en því að þau væru heilbrigð og að þungi þeirra væri sem næstur meðalþunga viðkomandi bús. Ein undantekning er þó frá þessu, þar sem í sumarslátruninni frá Hesti voru ekki önnur lömb tiltæk til slátrunar svo snemma, en undan gemlingum sem fengið höfðu við kollóttum hrútum, sem alls ekki eru sambærilegir að vaxtarlagi og lambafeðurnir í hinum slátrununum.

Í verkefninu var tilskilið að eftirtalin skrokkmál væru tekin á hverju falli eftir 24 klst kælingu frá slátrun (skammstafanir notaðar í töflunum):



Auk þessara tilskildu mælinga voru íslensku lömbunum gefin stig fyrir hold í lærum og framparti og jafnframt mæld fituþykkt á síðu (J) og ofan á bakvöðva (C).

Útvortis skrokkmál eru öruggasti mælikvarðinn á vaxtarlag, en þar sem samband þeirra við skrokkþungann er afar sterkt er nauðsynlegt, þegar um samanburð er að ræða, að hann sé gerður við jafnan fallþunga.

Við uppgjör á skrokkmálunum var notuð fervikagreining og bæir og kyn tekin sem fastir þættir og skrokkmálin leiðrétt með aðhvarfi mælinga á meðalfallþunga hverrar slátrunar fyrir sig. Þessi leiðrétting innan slátrana var gerð vegna þess að lömbin í þessum þremur slátrunum eru á mjög ólíku þroskastigi og því meiningarlaust að leiðrétta málin að meðalfalli allra slátrananna. Prófað var hvort marktækur munu væri á aðhvarfsstuðlum innan bæja og innan kynja í 1. og 2. slátrun og reyndist svo ekki vera. Niðurstöður skrokkmælinga úr öllum slátrununum eru sýndar í 1. töflu, ásamt gæðamatseinkunn á sama skala og notaður er hjá sauðfjárræktarfélögunum.


1. tafla. Meðaltöl aldurs, fallþunga (kg), útvortis- og þverskurðarmála (mm) og gæðamatseinkunnar í haust-, sumar- og vetrarslátrun 1997–99.


Þar sem aldur lambanna er miðaður við sláturdag þeirra kemur fram allmikill aldursmunur milli bæja enda þótt þau séu fædd um svipað leyti. Raunhæfur bæjamunur er á fallþunga í öllum slátrununum og eru Þóroddsstaðalömbin þyngst í haust- og vetrarslátrununum, en Gunnarsstaðalömbin í sumarslátruninni, enda slátrað síðast í þeirri slátrun. Varðandi vetrarslátrunina er rétt að benda á að Gunnarsstaðalömbin eru til muna léttari en þau frá hinum bæjunum tveimur. Þetta stafar af því, að lömbin lentu í korku um haustið vegna illviðra og þrifust ekki eðlilega til slátrunarinnar í janúarbyrjun.

Marktækur bæjamunur er á flestum vaxtarlagseinkennum og á vöðva- og fitumálum í öllum slátrununum. Í heild er óhætt að segja, að Þóroddsstaða- og Hestslömbunum svipi mjög saman að vaxtarlagi og vöðvaþroska bakvöðvans, en fituþykktarmálin gefa til kynna að Hestslömbin séu fituminni. Vert er að vekja athygli á að Hestslömbin hafa stærra ummál um augnkarla (CB) og bendir það til meiri holda á mölum en á lömbunum frá hinum bæjunum, og styðja niðurstöður úr krufningunum þessa ályktun (sjá 4. töflu). Gunnarsstaðalömbin skera sig nokkuð úr vegna meiri beinalengdar (T) og minni bakvöðva (A og B mál). Varðandi gæðamatseinkunnina þá virðist vaxtarlagsflokkunin hafa tekist bærilega, en hins vegar er augljóst að fituflokkunin í haust- og sumarslátrunum hafi mistekist þar sem Hestslömbin eru metin feitust, en eru í raun og veru með minnstu fituna, eins og fitumálin og krufningarnar sýna. Erfitt er að skýra þessi mistök en nærtækast er að skella skuldinni á æfingaleysi, enda aðeins um sjónmat að ræða og matskerfið þá nýtekið í notkun.

Í 2. töflu er sýndur samanburður á útvortis- og þverskurðamálum af lömbum þeirra fjárkynja sem þátttökuþjóðirnar völdu til rannsóknarinnar. Ennfremur sýnir taflan meðalaldur við slátrun og fallþunga, ásamt staðalfráviki.

Þar sem verkefnið spannar mörg og mismunandi framleiðslukerfi eru lömbin á mjög mismunandi þroskastigi er þeim var slátrað og fallþungi þeirra því eðlilega afar breytilegur, allt frá 5,5 kílóa meðalfalli til rúmlega 30 eftir framleiðslukerfum. Því var brugðið á það ráð að flokka hópana eftir meðalfallþunga í þrjá þungahópa til þess að sýna mismuninn í vaxtarlagi og vöðvaþroska við sem líkastan fallþunga. Við þessa flokkun kemur fram töluverður aldursmunur innan þungaflokkanna, sem kann e.t.v. að benda til lítillar vaxtargetu sumra kynja, eða þá að eitthvað hafi farið úrskeiðis í fóðruninni. Þrír hópar voru ekki teknir með í uppgjörið, þar sem fallþungi þeirra og aldur gerir þá einstæða meðal hópanna. Þessir hópar eru: 350 daga gamlir geldingar af Bergamasca kyni (IT 1) með 30,4 kg meðalfalli, 30 daga gömul spænsk lömb af Churra kyni (SP 2) með 5,5 kg meðalfalli og 50 daga gömul lömb af gríska kyninu Karagounico (GR 1) með 8,4 kg meðalfalli. Meðaltöl mælinga þessara hópa eru sýnd óleiðrétt fyrir fallþunga neðst í 2. töflu (flokkur 4). Við uppgjörið á hinum hópunum voru mælingarnar leiðréttar með aðhvarfi mála innan hópa að meðalfalli hvers hóps.

2. tafla. Meðaltöl fallþunga, útvortis- og þverskurðarmál (mm) sauðfjárkynja þátttökulanda eftir þyngdarflokkum.


Af niðurstöðunum má ráða að fjárkynin í Miðjarðarhafslöndunum Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Suður-Frakklandi (Lacaune) eru allfrábrugðin bresku, frönsku blöndunni og íslensku kynjunum að vaxtarlagi og liggur munurinn aðalega í lengri og grófari beinabyggingu, enda eru þessi kyn aðallega notuð til mjólkurframleiðslu til manneldis og kjötið því einskonar aukaafurð og því (sennilega) lítið skeytt um að bæta holdafarið. Íslensku lömbunum svipar í flestum vaxtarlagseiginleikum til bresku kynjanna og hinar frönsku blöndu (FR 1) af frönskum og breskum kjötkynjum (Texel, Charolais, Ile-de France og Suffolk), enda hafa þéttbyggð erlend holdakyn verið fyrirmynd að ræktun íslenska fjárins. Þó skal bent á að holdfylling íslensku lambanna á mölum, mæld sem ummál um augnkarla (CB), og þroski bakvöðvans (A og B mál) eru minni og jafnframt eru skrokkarnir styttri en hjá hinum þaulræktuðu erlendu holdakynjum.

Til rannsókna á vefjasamsetningu (hlutdeild fitu, beina og vöðva) var tilskilið í verkefninu að krufin væri vinstri helmingur af 10 skrokkum úr hverri slátrum, eða alls 40 frá hverju landi. Við val á krufningarskrokkunum var farið eftir ákveðnum reglum varðandi þunga þeirra, vaxtarlag og fitustig, þannig að úrtakið væri táknrænt fyrir meðalfallið í hverri slátrun. Í sláturhúsi, eftir kælingu, voru skrokkarnir helmingaðir eftir endilangri hryggsúlu og vinstri helmingurinn hreinsaður og undirbúinn til stykkjunar og krufninga samkvæmt stöðlum Búfjárræktarsambands Evrópu. Skrokkarnir voru hlutaðir í eftirtalin stykki: (1) frampart, þ.e. framhluti skrokksins (án bógs) frá og með aftasta rifi, (2) bógur, (3) spjaldhryggur, þ.e. hluti hryggsins frá aftasta rifi að fyrsta rófulið, (4) huppur, skilin frá spjaldhrygg með skurði samhliða bakvöðvanum utan við þverþornin og (5) malir og læri, skilin frá spjaldhrygg á mótum aftasta hryggjaliðar og fyrsta rófulið. Stykkjunum var síðan pakkað í lofttæmdar plastumbúðir og þau fryst þar til krufning fór fram.

Við uppgjör var notuð sama reikniaðferð og við skrokkmálin, þ.e.a.s. fervikagreining þar sem bæir og kyn voru tekin sem fastir þættir og hver vefur fyrir sig leiðréttur með aðhvarfi á meðaltal heildarþunga úrbeinaðra vefja innan hverrar slátrunar og hlutdeildarprósentan síðan reiknuð á leiðréttum þunga vefjanna. Prófað var hvort marktækur munur væri á aðhvarfsstuðlum innan bæja og reyndist ekki svo vera. Hins vegar kom fram marktækur munur á aðhvarfsstuðlunum vöðva og fitu innan kynja í haustslátruninni en ekki í sumarslátruninni og er sennilegt að kynjamunar í vöðva- og fituþroska sé lítið farið að gæta á þessum aldri.

Í 3. töflu er sýnd hlutdeild vöðva, fitu og beina í hundraðshlutum í hálfu falli eftir bæjum og sláturtíma og í 4. töflu í hverjum skrokkhluta fyrir sig.

3. tafla. Hundraðshluti (%) vöðva, fitu og beina í haust-, sumar- og vetrarslátrunum 1997–1999.



4. tafla. Hundraðshlutar (%) vöðva, fitu og beina í sundurteknum skrokkum í haust-, sumar- og vetrarslátrun 1997–99.


Í stuttu máli má segja að niðurstöðurnar sýni að vöðvavöxtur Hestslambanna er meiri og fitusöfnun minni en hjá lömbum frá Þóroddstöðum og Gunnarsstöðum. Þetta kemur hvað greinilegast fram í haustslátruninni og einnig í vetrarslátruninni, en munurinn þar er þó ekki marktækur. Hins vegar koma þessir kostir Hestslambanna ekki fram í sumarslátrunni, enda lömbin af allt öðrum toga, þ.e.a.s. gemlingslömb undan kollóttum hrútum eins og áður segir. Varðandi beinaþungann er hann svipaður hjá Þóroddsstaða- og Hestslömbunum, en heldur meiri hjá Gunnarsstaðalömbunum og er það í samræmi við niðurstöður á útvortismálunum, þar sem fram kemur að Gunnarsstaðalömbin hafa lengri langlegg en lömbin frá Hesti og Þóroddsstöðum.

Marktækur munur á vöðva- og fituprósentu kynja kemur fram í haustslátruninni en ekki í sumarslátruninni og er eðlileg skýring sú að kynjamunar í vexti vöðva og fitu sé ekki farið að gæta að neinu ráði á svo ungum aldri eins og áður er getið.

Umtalsverður munur er á vefjasamsetningu lambanna eftir sláturtíma og kemur hann greinilegast fram, þegar samanburður er gerður á hrútlömbunum í slátrununum, þar sem engum gimbrum var fargað í vetrarslátruninni. Augljóst er að hrútlömbin í vetrarslátruninni eru til muna magrari en í hinum slátrununum, og má efalaust rekja það til þess að þeim er fargað á fengitímanum, er kynhvötin er í hámarki, og því líklegast að lífsstarfsemin fari í annað en holdasöfnun. Athyglivert er einnig hve miklar þroskabreytingar verða í framparti hrútanna (sjá 4. töflu) frá haustslátrun til vetrarslátrunar, þar sem vöðvaprósentan eykst um tæplega 4,5 stig á um tveggja mánaðar bili.

Í 5. töflu er sýnd vefjasamsetning lamba þátttökulandanna eftir þungaflokkum og í 6. töflu í hverjum skrokkhluta fyrir sig. Uppgjörið var gert á sama hátt og lýst er hér að framan þ.e.a.s. hver vefur fyrir sig var leiðréttur með aðhvarfi innan kynja á meðaltal heildarþunga úrbeinaðra vefja innan hvers þungaflokks og hlutdeildarprósentan síðan reiknuð á leiðréttum þunga vefjanna.

Eins og að framan segir eru kynin afar ólík í vaxtarlagi og er óhætt að segja að vaxtarlagið (sjá 2. töflu) endurspegli vefjasamsetningu kynjanna. Hin háfættu Miðjarðarhafskyn skera sig úr, nær undantekningarlaust, með hæstu beinaprósentuna og í flestum tilfellum eru þau fituminnst. Aftur á móti er vöðvamagn þeirra nokkuð breytilegra, bæði í einstökum stykkjum og í heild og því ekki eins einkennandi fyrir þessi kyn eins og beinin og fitan.

5. tafla. Hundraðshluti (%) vöðva, fitu- og beina eftir sauðfjárkynjum þátttökulanda og þungaflokkum.

    6. tafla. Hundraðshluti (%) vöðva, fitu og beina í stykkjum eftir sauðfjárkynjum þátttökulanda og þungaflokkum.



    Greinilegt er að íslensku lömbin hafa mjög hagstæða vefjasamsetningu og er sama hvort um er að ræða einstaka skrokkhluta eða í heildina. Þau standa síst að baki þekktum holdakynjum, þ.e.a.s. bresku Suffolk×Mule blendingunum og Welsh Mountain og frönsku Texel, Charolais, Ile-de France og Suffolk (þau kyn koma öll fyrir í einum hóp og ekki greint á milli einstakra kynja (FR1)) í vöðvamagni og yfirleitt eru þau fituminni og beinaléttari.

    Að lokum skal vakin athygli á að þessi samanburður kynjanna er ekki einhlítur, þar sem hann takmarkast af þeim meðferðum, sem lömbin hafa fengið í uppvexti sínum og af því tilefni er því vísað til greinar Guðjóns Þorkelssonar og Stefáns Sch. Thorsteinssonar í þessu riti um mismunandi framleiðslukerfi þátttökulandanna í verkefninu.