Kornrækt á Íslandi
 |
Höfundur | Útgefandi | Útgáfuár | Útgáfustaður |
Jónatan Hermannsson | BÍ, RALA | 1993 | Reykjavík |
 |  |  |  |
Rit | Árgangur | Tölublað | Bls. |
Ráðunautafundur | 1993 | | 178-187 |
 |  |  |  |
 |  |  |  |

Frá vefstjóra: Skýringarmyndir eru aftan við texta.
INNGANGUR
Kornrækt mun hafa hafist í Danmörku og suðurhluta Skandinavíu 3000 árum fyrir upphaf núgildandi tímatals (Sjá t.d. Pelle Lauring bls. 44). Kornrækt mun hafa verð einn helsti bjargræðisvegur forfeðra okkar næstu 4000 árin eða þar til þeir flæmdust hingað útnorður í haf á níundu og tíundu öld.
Víst er, að landnámsmenn fluttu með sér sáðkorn og hafa látið verða sitt fyrsta verk í nýju landi að brenna rjóður í skóg og brjóta land og sá. Það lét Hjörleifur ganga fyrir öðru vorið 875 eins og frægt varð (Íslensk fornrit I. bls. 43). Jafn víst er, þótt hvergi sé það skráð, að menn hafa orðið fyrir vonbrigðum með uppskeruna um haustið. Landnámsmenn komu úr landi, þar sem meðalhiti fjögurra mánaða miðsumars er 13-14C og gildir þá einu hvort ætlað er, að þeir hafi komið úr Vestur-Noregi eða af Bretlandseyjum (Sjá t.d. Tallak Ausland bls. 23). Hérlendis er sumarhitinn fjórum stigum lægri, þegar skást lætur.
Heimildum ber saman um, að ekki hafi tjáð að rækta hér aðrar tegundir en bygg (Klemenz Kristjánsson 1925 bls. 4). Hvarvetna þar sem korn er nefnt athugasemdalaust í þessari grein, er átt við þá tegund.
Eftir 4000 ár við öl og graut þótti mönnum hart að hreppa Kaldbak en láta akra og munu ekki hafa gefist upp fyrr en í fulla hnefana. Örnefni og forn akurgerði sýna, að víða hafa menn reynt fyrir sér og oft þar sem lítil von var um árangur. Miðað við núverandi veðurfar hefur innan við helmingur landsmanna átt heima þar sem einhver leið var að rækta korn. Þá er höfð hliðsjón af skattbændatali bæði um 1100 og 1311 (Gunnar Karlsson bls. 7).
Uppskeran hefur aldrei verið mikil. Sumir telja, að tvöföld eða þreföld uppskera hafi verið venjuleg (Magnús Már Lárusson bls. 167). Korn varð líka rándýr munaðarvara. Samkvæmt Búalögum var hefðbundið landauraverð á mjölvætt ein vætt smjörs eða tvær vættir skreiðar (Tilvitnun eftir Gísla Gunnarssyni bls. 32). Innflutningur mun hafa verið frá Noregi fyrst og fremst, og Norðmenn voru ekki alltaf aflögufærir (Björn Þorsteinsson bls. 155).
Upp úr aldamótunum 1300 jókst innflutningur korns verulega og verð lækkaði allt niður í fjórðung landauraverðs miðað við skreið (Gísli Gunnarsson bls. 32). Ástæðan var helst sú, að þeirra tíma járntjald féll og Austur-Evrópumenn létu kristnast. Hansakaupmenn tóku að flytja korn frá Úkraínu og Litháen og selja vægu verði á Norðurlöndum, en sóttust eftir fiski til föstumatar í staðinn. Þetta efnahagsbandalag náði tökum á Björgvin snemma á 14. öld og þar með Íslandsverslunnni (Arnór Sigurjónssson bls. 121). Þessi innflutningur hefur líklega riðið endahnútinn á kornrækt Íslendinga. Skaftfellingar, sem óraveg áttu í kaupstað, hafa sennilega haldið lengst í kornið og hafa skorið mel jafnframt og síðan. Við melskurðinn voru notuð sömu vinnubrögð og orðfæri og við kornið og þannig hefur hvorutveggja varðveitst fram á þessa öld (Þórður Tómasson frásögn 12. sept. 1984).
Heimildir eru um, að landskuld af nokkrum jörðum við Faxaflóa hafi verið greidd í mjöli á árunum 1547-52. Sumir hafa talið það sönnun þess, að korn hafi þá verið ræktað á þeim slóðum (Sigurður Þórarinsson bls. 40). Nú orðið þykir það heldur ólíklegt. Miklu líklegra er, að bændur hafi greitt landsskuldina með innfluttu mjöli. Það mátti kaupa miklu lægra verði en gildi þess var, þegar það var metið til landaura. Samskonar afgjald var enn við lýði á þremur bæjum í Landeyjum árið 1709 (Gísli Gunnarsson bls. 45).
Notkun korns hefur verið mjög mikil hérlendis á þeim árum. Búreikningar fógetans á Bessastöðum og klausturhaldarans í Viðey frá ábúðarárinu 1551-52 hafa varðveitst. Búin höfðu þá sameiginlegan fjárhag og það ár voru notaðar á búunum báðum 170 tunnur mjöls og malts (Gísli Gunnarsson bls. 44).
KORNRÆKT TIL FORNA
Þar sem best lætur á Íslandi, er sumarhiti á mörkum þess, að dugi til kornþroska. Korn má nýta til matar, þótt ekki sé það fullþroska til dæmis í graut og brauð. Vandinn meiri er að fá sáðkorn til næsta árs og malt til að brugga öl. Þegar minnst er á malt í fornum bókum er það ævinlega innflutt (Magnús Már Lárusson -b bls. 308), enda þarf það að spíra jafnt og vel. Árin, sem uppskera hefur brugðist, gæti sáðkorn hafa verið ófáanlegt í heilum landsfjórðungum. Þrisvar sinnum síðustu fjórtán ár hefur ekki fengist spírunarhæft korn úr tilraunum í Rangárvallasýslu. Ræktun af innlendu sáðkorni eingöngu gæti því tæpast gengið við núverandi veðurfar.
Til að hægt væri að geyma hálfþroska korn, þurfti að þurrka það. Því hafa menn komið sér upp svonefndum sofnhúsum, þar sem korn var þurrkað á strámottum yfir eldi. Þau þekkjast hérlendis og í Færeyjum og á stöku stað í Noregi. Þannig var melkorn þurrkað í Skaftafellssýslu fram undir síðustu aldamót (Sæmundur Hólm tilvitnun eftir Birni M. Ólsen bls. 149-150).
Heimildir um kornrækt hér að fornu er að finna í fornbréfum, fornsögum og örnefnum og auk þess fornleifum. Sumar frásagnir eru ótrúlegar, eins og þessi klausa úr Þorgils sögu og Hafliða:
,,Á Reykhólum voru svo góðir landkostir í þennan tíma, að þar voru aldrei ófrævir akrarnir. En það var jafnan vani, að þar var nýtt mjöl haft til beinabótar og ágætis að þeirri veislu og var gildið að Ólafsmessu hvert sumar'' (Sturlunga saga I bls. 38).
Þarna er átt við árin fyrir og um 1119 og frásögnin hefur líklega verið færð í letur einni og hálfri öld síðar. Ólafsmessur eru tvær, 29. júlí og 3. ágúst (Almanak þjóðvinafélagsins 1993 bls. 28-32. Á tólftu öld var júlíanska tímatalið í gildi, en við lögtöku gregoríanska tímatalsins 1582 voru tíu dagar felldir úr árinu til að leiðrétta uppsafnaða skekkju. Hún gæti hafa verið um níu dagar á tólftu öld og þá hafa Ólafsmessur verið 7. og 12. ágúst að núgildandi tímatali). Til þess að akrar væru aldrei ófrævir að Reykhólum þyrfti sumarhiti að vera um 2C hærri en nú og til þess að skera mætti korn í júlílok eða ágústbyrjun þyrftu önnur tvö stig að bætast við. Ef taka á þessa klausu trúlega, er eina skýringin sú, að jarðhiti hafi verið notaður til ræktunar.
Fræðimenn hafa lengi haft fyrir satt, að orðin gerði og tröð í örnefnum bæru vitni um kornrækt (Sjá t.d. Björn M. Ólsen bls. 138-141 og Sigurð Þórarinsson bls. 38-40). Það getur átt við í sumum tilvikum, en fráleitt eru þau öll órækur vitnisburður. Þessi örnefni eru líka nokkuð jafndreifð um landið (Björn M. Ólsen bls. 13). Að þeim slepptum eru ritheimildir og örnefni nokkurn veginn trúleg miðað við veðurfar nú á tímum. Ein undantekning stingur þó í augu. Það er kornrækt í Breiðafjarðareyjum. Þar er nú sumarhiti miklu lægri en svo að dugi. Á nokkrum stöðum hlýtur jarðhiti að hafa komið við sögu. Svo er um Reykhóla, eins og áður var nefnt, Reykjanes við Djúp og Reykholt í Borgarfirði, en korn er hvergi nefnt í innsveitum vestanlands nema þar. Fyrir utan þetta bera heimildir vitni um kornrækt utarlega á sunnanverðu Snæfellnesi, á Mýrum niður undir sjó, á Akranesi, við sunnanverðan Faxaflóa frá Kjós og suður í Garð, í lágsveitum Suðurlands og í Eyjafirði. Mörg kornræktarörnefni eru innarlega í Blönduhlíð og þrjú í Austur-Húnavatnssýslu. Fljótsdalshérað er þarna ekki með, en þar eru mörg gerði, eins og reyndar í flestum sveitum (Björn M. Ólsen bls. 86-133).
Sagan um akurinn Vitaðsgjafa í Eyjafirði í Víga-Glúmssögu er mjög trúleg og gæti átt við svipað veðurfar og verið hefur síðustu áratugi:
,,En þau gæði fylgdu mest Þverárlandi, það var akur, er kallaður var Vitaðsgjafi, því hann varð aldrei ófrær'' (Íslensk fornrit IX bls. 22).
Kornrækt hverfur úr sögunni á 14. öld. Áður hefur verið minnst á áhrif verslunar og einnig hefur tíðarfar verið erfitt sum árin. Í Skálholtsannál stendur við árið 1331: ,,Óáran á korni á Íslandi'' (Tilvitnun eftir Birni M. Ólsen bls. 85). Um miðja öldina skrifaði Arngrímur ábóti Brandsson: ,,Korn vex í fám stöðum sunnanlands og ekki nema bygg'' (Biskupasögur III bls. 161).
Korn hefur fundist á tveimur stöðum hérlendis við fornleifagröft. Á báðum stöðum voru leifarnar kolaðar og sýndust vera í brunninni sofnhústóft. Árin 1952-53 voru grafnar upp rústir brunninna húsa á Bergþórshvoli. Þær voru frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Þar fundust leifar byggs og fleiri ræktunarjurta. Sturla Friðriksson hefur rannsakað þessar leifar og meðal annars látið gera á þeim geislakolsmælingu. Hann hefur komist að þeirri niðurstöðu, að kornið gæti sem best hafa brunnið nýhirt í Njálsbrennu síðsumars 1011. Leifarnar eru af sexraða korni, fjögurra hliða, eins vel þroskuðu og gerist hér í bestu árum (Sturla Friðriksson 1960 bls. 30-33). Þetta getur átt við árið 1011, því um það segir í Njálu: ,,Nú vorar snemma um vorið, og færðu menn snemma niður korn sín'' (Íslensk fornrit XII bls. 279).
Síðari fundurinn var í Gröf í Öræfum. Árið 1957 var grafinn þar upp bær, sem hafði lent undir vikri í Öræfajökulsgosinu 1362. Þar fannst brunnið sofnhús og í tóftinni þreskt byggkorn, mjög smátt og illa þroskað (Sturla Friðriksson 1959 bls. 88-90). Kornið frá þessu harðindaári er síðasta áreiðanlega heimildin um íslenska kornrækt á miðöldum.
KORNRÆKT FRÁ SIÐASKIPTUM
Vitað er, að Gísli Magnússon sýslumaður á Hlíðarenda reyndi að rækta korn um miðja 17. öld, en hlaut ekki árangur sem erfiði. Um miða 18. öld höfðu stjórnvöld mikinn hug á því að bæta hag landsmanna meðal annars með því að fá þá til að rækta korn. Enn mun mönnum hafa sést yfir þann mikla mun, sem er á sumarhita hér og í grannlöndunum austanhafs. Árið 1751 fluttust hingað 15 norskir og danskir bændur með skylduliði sínu og áttu að kenna landsmönnum kornrækt. Þeir voru settir niður á vestanverðu Norðurlandi og á Suðurlandi. Þeir bjuggu hér fimm ár eða sex og tókst hörmulega til með ætlunarverkið, enda harðindi í landi. Fyrir atbeina og fjárstyrk stjórnvalda var korni sáð öðru hverju næstu áratugina með litlum árangri. Við Móðuharðindin létu menn sér segjast (Klemenz Kristjánsson 1925 bls. 6-7).
Um miðja 19. öld var korni sáð í Köldukinn án árangurs (Jónas Jónsson bls. 36). Næstur kom Schierbeck landlæknir og reyndi að rækta bygg ásamt öðru í Reykjavík árin 1883-90 (Schierbeck 1886 bls. 57-58, sami 1890 bls. 175). Honum gekk illa að fá þroskað korn og sagði að menn yrðu að vera við því búnir að verka súrhey úr korninu, ef þroski brygðist (Schierbeck 1886 bls. 62-63). Það á enn við.
Í upphafi þessarar aldar voru gerðar nokkrar tilraunir í gróðrarstöðvunum á Akureyri og í Reykjavík með misjöfnum árangri (Klemenz Kristjánsson 1946 bls. 9). Árið 1923 tók Klemenz Kristjánsson til við korntilraunir, fyrst í Reykjavík en frá og með 1927 á Sámsstöðum (Klemenz Kristjánsson 1946 bls. 31-90). Hann hélt þeim áfram allt til starfsloka á Sámsstöðum 1967 og reyndar lengur (Siglaugur Brynleifsson bls. 128). Sérfræðingar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hafa svo fengist við ýmsar rannsóknir á kornrækt frá 1960 til þessa dags.
Klemenz hitti á afburða hlýtt tímabil og tókst kornrækt hans oftast vel. Hann hafði og mikinn hug á að breiða hana út. Að hvatningu hans var korn ræktað á nokkrum stöðum einkum á austurhelmingi landsins á sjötta áratugnum og fram yfir 1960, sums staðar í stórum stíl (Siglaugur Brynleifsson bls. 120-122). Harðindin 1965 og þar á eftir slógu botninn í það ævintýri. Árin 1965-80 var korn einungis ræktað á tveimur stöðum á landinu, Sámsstöðum og Þorvaldseyri. Austur-Landeyingar hófu svo kornrækt af myndarskap 1981, og nú eru kornræktarbændur orðnir 90-100 talsins í þremur landsfjórðungum.
KORNRÆKTARTILRAUNIR
Rannsóknastofnun landbúnaðarins stendur að margháttuðum rannsóknum á korni og ræktun þess. Má þar nefna tilraunir með vetrarþol og ræktun vetrarkorns á Möðruvöllum, kynbætur byggs, prófun erlendra afbrigða og ýmsar ræktunartilraunir á Korpu, Sámsstöðum og víða meðal bænda (Sjá t.d. Jarðræktartilraunir 1991 bls. 7-14 og 23-24).
Eitt kornverkefnið heitir Veðurfar og bygg og verða nú kynntar niðurstöður úr hluta þess. Tilraunirnar hafa staðið í 12 ár og verið gerðar á fjórum stöðum; Korpu, Sámsstöðum, Geitasandi á Rangárvöllum og Egilsstöðum á Héraði. Tilraunin hefur verið gerð öll árin á tveimur fyrstnefndu stöðunum, en á Korpu einni hefur hún verið gerð í sama blettinum við samskonar atlæti öll árin. Niðurstöður úr Korputilrauninni einni verða gerðar hér að umtalsefni. Hér verður reynt að teygja þær dálítið og meta með þeim möguleika á kornþroska í öðrum sveitum. Páll Bergþórsson hefur skrifað grein um sama efni (Páll Bergþórsson bls. 48-56). Hér er komið að viðfangsefninu úr annarri átt, en niðurstöður verða ekki ósvipaðar.
Í tilrauninni eru sex byggafbrigði, flest fljótþroska og að meðaltali eru þau mjög lík þeim afbrigðum, sem eru hér í ræktun. Kornið er ræktað í 0,78 m2 reitum og tveimur samreitum. Reitirnir eru því 12 alls og er meðaltal þeirra látið gilda sem meðaltal ársins. Áburður samsvarar 75 kg N á ha í blönduðum áburði. Sáð er 15. maí ár hvert og skorið upp 15. september. Vaxtartími er því fjórir mánuðir eða 123 dagar. Reitirnir eru við veðurstöðina á Korpu í mélublöndnum móajarðvegi.
Meðalhiti þessara fjögurra mánaða síðustu 12 ár á Korpu hefur verið 9,4C með normaldreifingu. Lægstur var hitinn 8,2C sumarið 1983 og hæstur 10,6C árið 1991. Meðalfrávik milli ára er 0,7C. Frost hefur einu sinni stöðvað kornþroska á þessu tímbili. Það var 3. september 1992 og minnkaði nýtanlegan hita það sumar um 60 daggráður.
Í þessari tilraun, eða Búveðurathuguninni eins og hún er oftast nefnd, hefur úrkoma ekki haft reiknanleg áhrif á uppskeru. Þetta á við Korpu, enda er jarðvegur þar vatnsheldinn. Í sandi hefði eflaust gegnt öðru máli. Heildaruppskera, það er hálmur og korn til samans, er óháð hitastigi sprettusumarsins. Helst er, að hún fylgi hitastigi fyrri ára.
Hiti sprettutímans ræður hins vegar öllu um kornþroskann. Flutningur mjölva í ax virðist miklu háðari hita en spírun og tillífun. Í 1. töflu má sjá fylgni hita og þeirra uppskeruþátta, sem honum tengjast.
Vaxtartíminn hefur verið 123 dagar hvert sumar nema sumarið 1992, þá varð hann 112 dagar vegna frosts. Hitasumma áranna hefur verið frá 1010 árið 1983 upp í 1300 árið 1991 að meðaltali 1155 daggráður (hér eftir skammstafað D). Meðalfrávik er 86 D. Korn hefur aldrei orðið fullþroska þessi ár, þótt nærri því væri komið árið 1991. Sæmilega spírunarhæft korn hefur fengist fjórum sinnum, eftir 1230 D eða meira.
1. tafla. Fylgni hita og nokkurra uppskeruþátta í búveðurathugun á Korpu 1981-92.

Sprettutímabilið getur verið lengra en þessir fjórir mánuðir, sérstaklega í framendann. Kornfyllingin síðsumars þarf reyndar nokkuð mikinn hita. Grannar okkar austanhafs hafa miðað við, að kornfylling hætti, þegar fjögurra daga meðaltal nær 10C síðasta sinn að hausti (B. Eriksson 1978, tilvitnun eftir Samordnad odlingsvärdeprovning bls. 57). Til að einfalda málið er hér miðað við þann tíma, þegar meðalhámark dagshitans fer niður fyrir 10C. Það gerist að meðaltali mjög nærri 15. september og munur er ekki mikill milli landshluta. Því er þessi dagsetning látin gilda sem lokadagur fyrir kornfyllingu um land allt. Það kemur líka heim við reynslu manna langflest ár.
Frost getur drepið korn hvenær sem er eftir skrið. Það þroskast þá ekki frekar. Gerist það strax eftir skrið verður kornið tómt og visið. Frjósi síðar, staðnar kornið og hafi það fyllt sig að einhverju marki er það nýtanlegt. Þetta gerist ekki oft og frost þarf að vera mikið til að eyðileggja korn, líkast til -10C við jörð og því meira, sem kornið er lengra komið á þroskabrautinni.
Um spírun sáðkorns og byrjun sprettu gegnir öðru máli. Þá nýtist allur hiti, svo fremi að ekki sé frost. Korn, sem sáð var á Korpu 15. apríl í vor er leið, var komið með rætur 15 dögum síðar, þótt meðalhiti í 5 sm dýpt jarðvegs hafi ekki verið nema 1,9C og í lofti 2,7C. Spírandi korn þolir frost mjög vel. Þetta korn fékk á sig sex nætur með -13C við jörð eða kaldari og varð ekki að meini, jafnvel ekki þótt það lægi á yfirborði. Vegna þessa er rétt að miða upphaf sprettutímans við það, þegar hægt er að komast um flög til að vinna jörð og sá. Þar með ræður vetrarhiti, jarðklaki og snjóalög nokkru um það, hvernig sveitir henta til kornræktar.
Reynslan frá í sumar sýnir, að hægt er að skera með vélum korn, sem er nánast ekki neitt. Einhvers staðar eru þó þau mörk, að ekki tekur því að eiga við uppskeruna vegna þess hve hún er blaut og lítil. Í samráði við kornbændur höfum við sett þessi mörk við 18 mg kornþunga. Þ á er kornið grasþurrt eða með 30-40% þurrefni í þurrki slegið. Þetta fæst eftir 9,0C í fjóra mánuði eða 1110 D. Þá eru um 16% uppskerunnar korn.
Nú er spurningin, hvað menn vilja sætta sig við mikla óvissu um kornþroska. Klemenz segir, að mönnum sé vorkunnarlaust að taka korn í grænfóður þrjú ár af hverjum tíu (Siglaugur Brynleifsson bls. 118). Séu kröfurnar ekki harðari en það, nægja 40 D umfram lágmarkið eða 1150 D að langtímameðaltali. Korpa er þá við neðri mörkin.
Við þetta má bæta því, að þroskaferill korns er orðinn vel þekktur. Til dæmis þarf fljótþroska korn um 700 D til að ljúka skriði. Þá þarf það rúmlega 400 D í viðbót til að ná lágmarksþroska og það er að minnsta kosti hálfur annar mánuður síðsumars. Sé korn ekki skriðið um mánaðamótin júlí-ágúst, er það bara grænfóður og ber að umgangast það sem slíkt.
Áður var bent á, að væri hægt að koma korni niður fyrir 15. maí, þá nýttist sá tími. Þótt síðast liðið sumar væri kalt, þá voraði vel á Suðurlandi og víða fór korn í jörð í apríl. Það hefur bjargað því, sem bjargað varð. Vestan til á Suðurlandi var þetta óvenjulegt vor. Þar kemur jarðklaki venjulega í veg fyrir jarðvinnslu fram í miðjan maí. Annars staðar kemur jörð oft snjólaus og klakalítil undan vetri. Það á við um Suðurnesin og Suðurströndina frá Landeyjum austur fyrir Hornafjörð. Reynslan sýnir, að þar má að jafnaði koma korni niður fyrir 5. maí, en annars staðar, til dæmis í Árnessýslu, á Héraði og í Eyjafirði verður korni ekki sáð fyrr en 15. maí til jafnaðar.
Þar sem snemma er hægt að sá bætast því um 50 D við nýtanlegan hita. Því má á þeim slóðum reyna við kornrækt, sé sumarhitinn 9,0C hið minnsta. Bestar eru þær sveitir, þar sem saman fer snemmbúið vor og tiltölulega hlýtt sumar. Svo er í austurhluta Rangárvallasýslu og um miðbik Vestur-Skaftafellsýslu. Þar er nýtanlegur hiti allt að 1250 D í meðalári og korn ætti ekki að bregðast alveg nema tuttugasta hvert ár. Sáðkorn ætti að fást þar sex ár af hverjum tíu.
Á 4. mynd sést hvar á landinu er mögulegt að rækta korn. Miðað er við, að nýtanlegt korn fáist sjö ár af hverjum tíu í árferði, eins og verið hefur síðustu þrjátíu árin. Ljóst er, að illa fer saman norðaustanátt og kornrækt. Reynslan sýnir, að best hentar, að vera suðvestan undir fjöllum. Sums staðar eru þessar línur dregnar eftir reynslu og jafnvel tilfinningu, því veðurstöðvar eru strjálar. Munurinn á Austur- og Vesturlandi er athyglisverður. Eystra er hlýjast inni í dölum, en vestra undir múlum úti við sjó. Þetta kemur líka fram í örnefnum og fornbréfum, eins og áður getur.
HEIMILDIR
Almanak hins íslenzka þjóðvinafélags fyrir árið 1993, 96 bls. Reykjavík 1992.
Arnór Sigurjónsson, Íslendingasaga, 268 bls. Akureyri 1942.
Tallak Ausland, Gardskogen, 324 bls. Oslo 1968.
Björn M. Ólsen, Um kornyrkju á Íslandi að fornu, Búnaðarritið 1910, 24 árg. bls. 81-167.
Björn Þorsteinsson, Kornhandel, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, bls. 155, København 1956-1978.
Biskupasögur III, Guðmundar saga Arasonar, bls. 155-506, Reykjavík 1948.
Gísli Gunnarsson, Landskuld í mjöli, Saga 1980, 18. árg. bls. 31-48.
Gunnar Karlsson, Frá þjóðveldi til konungsríkis, bls. 3-36. Saga Íslands II, Reykajvík 1975.
Íslenzk fornrit I, Landnámabók, bls. 31-397, Reykjavík 1968.
Íslenzk fornrit IX, Víga-Glúms saga, bls. 3-98, Reykjavík 1956.
Íslenzk fornrit XII, Brennu-Njáls saga, bls. 5-480, Reykjavík 1954.
Jarðræktartilraunir 1991, Fjölrit Rala nr. 154, 56 bls. Reykjavík 1992.
Jónas Jónsson, Ræktun landsins, Bættir eru bænda hættir, bls. 30-50, Reykjavík 1968.
Klemenz Kristjánsson, Um kornrækt á Íslandi, Freyr 1925, 22. árg. bls. 4-9.
Klemenz Kristjánsson, Kornræktartilraunir á Sámsstöðum og víðar, Rit landbúnaðardeildar B-flokkur nr 1, 107 bls. Reykjavík 1946.
Pelle Lauring, De byggede riget, Damnarks oldtids hostorie, 213 bls. København 1978.
Magnús Már Lárusson -a, Korntal, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder IX, bls. 167, København 1956-1978.
Magnús Már Lárusson -b, Malt, Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder XI, bls. 308, København 1956-1978.
Páll Bergþórsson, Þroskalíkur byggs á Íslandi, Veðrið 1965, 10. árg. bls. 48-56.
Samordnad odlingsvärdesprovning í Norden, Samnordisk planteförädling, publikation nr. 14, 91 bls. Oslo 1986.
Hans J.G. Schierbeck, Skýrsla um nokkrar tilraunir til jurtaræktunar á Íslandi, Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1886, 7. árg. bls. 1-66.
Hans J.G: Schierbeck, Skýrsla um nokkrar tilraunir til jurtaræktuinar á Íslandi, Tímarit hins íslenska bókmenntafélags 1890, 11. árg. bls. 144-176.
Siglaugur Brynleifsson, Klemenz á Sámsstöðum, 152 bls. Reykjavík 1978.
Sigurður Þórarinsson, Samband lands og lýðs í ellefu aldir, Saga Íslands I, Bls. 29-97, Reykjavík 1974.
Sturla Friðriksson, Korn frá Gröf í Öræfum, Árbók hins íslenska fornleifafélags 1959, bls. 88-91.
Sturla Friðriksson, Gróður af akri Njáls bónda á Bergþórshvoli, Andvari 1960, 85. árg. bls. 27-36.
Sturlunga saga I, Þorgils saga og Hafliða, bls. 11-76, Reykjavík 1948.

1. mynd. Áhrif hita á kornuppskeru í búveðurathugun á Korpu 1981-92. Sé reiknað með fjögurra mánaða meðalhita, er hallastuðullinn 9,7 hkg á hvert hitastig.

2. mynd. Árhif hita á þúsundkornaþunga í búveðurathugun á Korpu 1981-92. Sé reiknað með fjögurra mánaða meðalhita, er hallastuðullinn 14 g á hvert hitastig.

3. mynd. Áhrif hita á hlutfall korns og hálms í búveðurathugun á Korpu 1981-92. Sé reiknað með fjögurra mánaða meðalhita, er hallastuðullinn 16% á hvert hitastig.

4. mynd. Kornræktarhéruð á Íslandi, bæði reynd og líkleg. |