Haust- og vetrarfóðrun sláturlamba
 |
Höfundur | Útgefandi | Útgáfuár | Útgáfustaður |
Bragi Líndal Ólafsson, Emma Eyþórsdóttir | BÍ, RALA | 1996 | Reykjavík |
 |  |  |  |
Rit | Árgangur | Tölublað | Bls. |
Ráðunautafundur | 1996 | | 168-173 |
 |  |  |  |
 |  |  |  |

INNGANGUR
Markaðsstaða lambakjöts á innanlandsmarkaði hefur farið versnandi á undanförnum árum og valdið verulegum samdrætti í sauðfjárbúskap. Einn af þeim möguleikum sem menn hafa velt fyrir sér til að bæta samkeppnisstöðu lambakjöts er að dreifa sláturtíma sauðfjár og bjóða ferskt kjöt til sölu utan hefðbundinnar sláturtíðar. Lítil reynsla er af innifóðrun sauðfjár til slátrunar hér á landi og ljóst að þekkingu vantar til að gera sér grein fyrir hagkvæmni slíkrar framleiðslu.
Í tilefni af þessari umræðu var efnt til samstarfsverkefnis haustið 1993 um fóðrun lamba og slátrun utan hefðbundinnar sláturtíðar. Innan ramma þessa samstarfs voru gerðar tilraunir með fóðrun lamba frá hausti og fram eftir vetri á Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti, Bændaskólanum á Hvanneyri og við Bændaskólann á Hólum. Einnig voru gerðar athuganir hjá bændum í Borgarfirði sem fóðruðu lömb fram á vetur (Ólöf Björg Einarsdóttir 1994) en áður hafði Sveinn Hallgrímsson (1993) unnið að svipuðu verkefni í samstarfi við bændur í Borgarfirði. Verkefnið var styrkt af Landssamtökum sauðfjárbænda af fé til rannsókna og þróunar í sauðfjárrækt sem Framleiðnisjóður landbúnaðarins lét í té.
Tilraunirnar beindust bæði að fóðrun feitra lamba til "affitunar" og fóðrun lamba, sem voru smá og létt að hausti, til vaxtar og slátrunar að vetri. Markmið vaxtartilraunanna var að finna heppilegustu fóðursamsetningu fyrir lömb, sem alin eru til vaxtar, með tilliti til æskilegra vefjahlutfalla fyrir markaðssetningu utan venjulegrar sláturtíðar og afla upplýsinga um fóðurþarfir lamba í vexti, sem nota má í fóðurtöflur fyrir ný fóðurmatskerfi fyrir jórturdýr.
Hér verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum úr einni tilraun úr þessu verkefni, sem framkvæmd var á RALA, þar sem viðfangsefnið var einstaklingsfóðrun lamba til vaxtar fram eftir vetri.
EFNI OG AÐFERÐIR
Í tilraunina voru notuð 32 gimbrarlömb frá tilraunabúinu á Hesti, sem voru að meðaltali 33 kg á fæti við upphaf tilraunarinnar 25. október. Viðmiðunarhóp með 8 gimbrum var slátrað 26. október og hinum skipt í fjóra hópa með sex lömbum í hverjum hóp. Hóparnir voru fóðraðir á þurrheyi (vallarsveifgras frá Stóra-Ármóti), völsuðu byggi og pressukökumjöli í mismunandi hlutföllum, sjá 2. töflu. Samsetning fóðursins er sýnd í 1. töflu.

Fóðuráætlunin miðaðist við að öll lömbin fengju sömu orku en var mismunað í AAT. Köfnunarefnishlutfall í fóðrinu var jafnað út með þvagefni (urea) sem var blandað í kjarnfóðrið. Áætlaður dagvöxtur út frá fóðuráætlun var 130-140 g/dag. Lömbin voru einstaklingsfóðruð allan tilraunatímann; fóður til og frá hverju lambi vigtað daglega og sýni af heyi og fóðurleifum tekin. Lömbin voru vigtuð og holdastiguð vikulega á tilraunatímanum. Helmingi gimbranna í hverjum fóðurflokki var slátrað 15 febrúar en hin fóðruð áfram til 12. apríl. Lömbin voru vigtuð að morgni sláturdags, flutt að sláturhúsi, rúin rétt fyrir slátrun og ullin vigtuð.
Lömbunum var slátrað í Afurðastöð KB í Borgarnesi. Við slátrun voru innyfli aðskilin og öll líffæri vigtuð; fita var aðskilin í netju, nýrmör og ristilfitu og vegin; meltingarfæri voru tæmd og einstakir hlutar þeirra vigtaðir. Gærur, hausar og lappir voru vigtuð. Tóm vigt var reiknuð sem summa skrokks og allra líffæra eftir tæmingu meltingarfæra. Daginn eftir slátrun voru skrokkarnir mældir útvortis, skornir í sundur milli 12. og 13. rifs og hryggvöðvi og fita á hrygg og síðu mæld. Í seinni tveimur slátrununum voru skrokkarnir klofnir eftir endilöngum hrygg og vinstri helmingur hlutaður í læri, hrygg, slag og frampart, hvert stykki vigtað, síðan úrbeinað og vöðvi, bein, afskorin fita og kjötafskurður vigtað. Nýtanlegt kjöt í skrokknum var reiknað út sem summa úrbeinaðra stykkja og kjötafskurðar. Sýni af hryggvöðva úr lömbum í fóðurflokkum sem fengu annars vegar ekkert fiskimjöl og hins vegar 90 g/dag af fiskimjöli voru tekin til skynmats.
NIÐURSTÖÐUR OG UMRÆÐUR
Þungabreytingar lambanna eru sýndar á 1. mynd (ekki tókst að ljúka uppgjöri á fóðurtölum fyrir prentun þessa rits). Eftir aðlögunartímabil í upphafi þyngdust flest lömbin vel fram í desember en síðan hægði á vextinum fram yfir áramót. Ástæðan var án efa truflanir og óróleiki vegna fengitímans og í mörgum tilfellum sást að gimbrarnar voru blæsma og átu óreglulega. Að þessu tímabili loknu tók vöxturinn við sér aftur og gimbrarnar þyngdust yfirleitt vel til loka tilraunarinnar. Óverulegur munur var á þyngingu milli tilraunahópa fram að fyrri slátrun en frá febrúar til apríl þyngdust gimbrarnar mest sem fengu mest fiskimjöl.

Meðaltöl fyrir þunga skrokks og skrokkhluta eru sýnd í 3. töflu. Meðalþynging frá hausti fram til slátrunar í febrúar var 10 kg og rúm 18 kg fram í apríl. Aukning í tómri vigt (án ullar, gors og blóðs) var 9,3 kg til fyrri slátrunar og rúm 15 kg til seinni slátrunar frá hausti. Vöxtur í fallþunga var 59% af aukningu í tómri vigt við fyrri slátrun og 63% við seinni slátrun. Mikil aukning varð í innyflafitu, sem tvöfaldaðist frá hausti til fyrri slátrunar en meltingarfæri uxu hins vegar ekkert. Gærur (án ullar) þyngdust nokkuð á fyrra tímabilinu en lítið eftir það. Ekki kom fram marktækur munur í þungatölum milli tilraunahópa og eru meðaltöl hópanna í 4. töflu meðaltöl beggja sláturtíma fyrir hvern hóp. Í 4. töflu eru birt þungameðaltöl hópanna innan sláturtíma ásamt meðalvexti á dag í lifandi þunga. Þar kemur fram að hópurinn sem fékk mest fiskimjöl (90:210) óx best bæði tímabilin en náði þó aldrei þeim dagvexti sem áætlaður var í upphafi tilraunarinnar. Hinir hóparnir voru fremur jafnir fram til slátrunar í febrúar en eftir það stóð hópur 3 (60:245) svo til í stað á meðan hinir bættu dagvöxtinn.


Nokkrar niðurstöður úr grófkrufningu skrokkanna koma fram í 5. töflu. Skrokkar af viðmiðunarlömbunum fengu ekki sömu meðhöndlun og þeir sem síðar var slátrað þannig að samanburður við hausthópinn er ekki fyrir hendi. Nýtanlegt kjöt í skrokkunum jókst um 2,6 kg milli sláturtíma en munur á afskorinni fitu var 0,45 kg. Lítill munur var á tilraunahópum en þó voru hlutföllin sýnu best í hópnum sem óx best (90:210). Samanburður á hlutföllum kjöts og fitu við jafnan fallþunga sýnir að heildarhlutföll í skrokkunum voru óbreytt á milli sláturtíma.

Hlutfall heildarfitu í skrokknum, reiknað sem summa innyflafitu, afskorinnar fitu og slaga af tómri vigt var 26,2%, jafnt í báðum slátrunum, sem er svipað hlutfall og í 48 vikna gömlum gimbrum í vaxtarrannsóknum á sauðfé, þar sem hlutfallið var 24,7% af tómri vigt án gæru (Sigurgeir Þorgeirsson og Stefán Sch. Thorsteinsson 1989).
Ef reiknaðir eru hlutfallslegir vaxtarstuðlar (hallastuðlar í log-log aðhvarfslíkingu) fyrir fall og skrokkhluta á tilraunatímanum borið saman við tóma vigt kemur fram að föll lambanna í tilrauninni uxu nánast með sama hraða og lömbin í heild (stuðull 1,02) frá hausti fram í apríl en innyflafitan óx mun hraðar (stuðull 1,74). Vöxt á nýtanlegu kjöti og skrokkfitu er einungis hægt að mæla milli slátrana í febrúar og apríl en ef það er gert eru hliðstæðir stuðlar miðað við tóma vigt 1,20 fyrir nýtanlegt kjöt og 1,07 fyrir skrokkfitu, reiknað sem afskorin fita og slög. Lömbin virðast því hafa bætt á sig að minnsta kosti jafnmiklu kjöti og fitu. Mælingar á síðufitu (J mál) sýndu hins vegar aukningu um rúma 2 mm á meðaltali milli slátrana, sem hafði veruleg áhrif á flokkun skrokkanna milli sláturtíma en hún kemur fram í 6. töflu.

Meðalfituþykkt á síðu var mjög nærri mörkum milli DIB og DIC við seinni slátrunina enda skiptust skrokkarnir milli þessara flokka. Þessir skrokkar voru mjög stórir og er það mögulega umhugsunarefni hvort fitumál sem ræður flokkun á að vera í sömu fjarlægð frá hrygglínu á skrokkum sem eru 25 kg og þeim sem eru 12 kg. Ef skrokkarnir sem komu úr slátrun í apríl hefðu verið flokkaðir eftir fituþykkt 13 cm frá hrygg í stað 11 cm, hefðu 4 skrokkar flokkast í DIA, 3 í DIB og 5 í DIC.
Við fyrri slátrun í febrúar var síðufita svipuð í öllum tilraunahópum nema þeim sem fékk mest fiskimjöl (90:210) og voru þau lömb áberandi feitust með 14,7 mm síðufitu en við seinni slátrunina var meðalfituþykkt lambanna í þessum hóp 14 mm sem var undir meðaltali á þeim tíma. Ástæðan er fyrst og fremst erfðabreytileiki í síðufitu milli lambanna sem ekki var jafn innan hópanna en ekki meðferðaráhrif.
Niðurstöðurnar í heild gefa til kynna að eldi lamba til slátrunar að vetri sé vel gerlegt og skrokkar af alilömbum séu kjötmiklir og síst feitari en skrokkar af haustlömbum með sambærilegan þunga. Ef haustlömb eru alin fram í apríl eins og hér var gert, verða skrokkarnir hugsanlega of þungir fyrir hefðbundinn lambakjötsmarkað en ættu að henta mjög vel til úrbeiningar og sölu á sneiddum steikum eða úrbeinuðum vöðvum. Eðlilegt væri að seinka sauðburði fram í júní/júlí til þess að framleiða smærri skrokka til sölu á útmánuðum og líklegt er að yngri lömb sem tekin væru þannig í eldi myndu vaxa betur frá upphafi en venjuleg haustlömb sem ekki hafa vaxið eðlilega og eru þar af leiðandi létt að hausti.
HEIMILDIR
Ólöf Björg Einarsdóttir, 1994. Framleiðsla á fersku lambakjöti. Hópfóðrun hjá bændum í Borgarfirði. Bændaskólinn á Hvanneyri, fjölrit, 13 bls.
Sveinn Hallgrímsson, 1993. Síslátrun vorlamba. Hvanneyri, fjölrit, 18 bls.
Sigurgeir Thorgeirsson og Stefán Sch. Thorsteinsson, 1989. Growth, development and carcass characteristics. Í: Reproduction, Growth and Nutrition in Sheep. Dr. Halldór Pálsson Memorial Publication (ritstj. Ólafur R. Dýrmundsson og Sigurgeir Thorgeirsson). Búnaðarfélag Íslands: 169-204. |