Áhrif gróðurs á yfirborðsstöðugleika [veggspjald]

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Berglind Orradóttir, Ólafur ArnaldsBÍ, LbhÍ, L.r., S.r.2006Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Fræðaþing landbúnaðarins2006264-267

54.pdf54-BO-I.pdf
Greinin í heild sinni er í skjali 54 hér að ofan og veggspjaldið í hinu pdf-skjalinu.

Inngangur

Fátt mótar yfirborð landsins meira en svokallaðir frost-þíðu ferlar, sem m.a. mynda þúfur, paldra, melatígla á yfirborðinu. Þessir ferlar hafa einnig mikil áhrif á hvernig tekst til með uppgræðslu því myndun ísnála er meðal þess sem mest áhrif hefur á afdrif ungra plantna (Ása L. Aradóttir, 1991; Edda Sigurdís Oddsdóttir o.fl., 1998). Loftslag, jarðvegseiginleikar og yfirborðsþekja hafa áhrif á tíðni og styrkleika (intensity) frost-þíðu ferla í jarðvegi og þar með stöðugleika yfirborðs. Þar eru hitasveiflur í kringum 0°C ekki síst afdrifaríkar. Gróður hefur áhrif á frost-þíðu ferla með því að draga í sig sólarorku, minnka uppgufun og draga úr vindi og loftflæði við yfirborð. Þessir þættir minnka varmaflutning milli jarðvegs og andrúmslofts samanborðið við ógróið land. Jafnframt er meiri snjósöfnun á grónu landi þar sem gróður eykur hrjúfleika yfirborðs og dregur úr vindi við yfirborð, en snjórinn einangrar yfirborðið.

Gróðurrýrnun og gróðureyðing auka hitabreytingar í jarðvegi, sem veldur auknum frosthreyfingum í yfirborðinu. Frosthreyfingar auka álag á plöntur og minnka viðnám yfirborðs gegn vind- og vatnsrofi. Rýrnun og tap gróðurþekju getur því verið fyrsta stig hnignunar vistkerfis þar sem aðstæður plantna til landnáms, vaxtar og viðhalds verða verri en áður.

Markmið þessarar rannsóknar var að skoða áhrif gróðurs á frostlyftingu. Gert var ráð fyrir því að frostlyfting ætti sér stað í öllum gróðurgerðum en að tíðni og styrkur frost-þíðu-ferla og frostlyftingar myndi minnka með aukinni gróðurþekju og jarðvegsdýpi. Frekari umræða um aðferðir og niðurstöður er að finna ritgerð Berglindar Orradóttur (2002).