Gróðurmörk á Íslandi utan eldvirka beltisins [veggspjald]

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Björn Traustason, Sigmar Metúsalemsson, Einar Grétarsson, Fanney Ósk Gísladóttir, Ólafur ArnaldsBÍ, LbhÍ, L.r., S.r.2006Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Fræðaþing landbúnaðarins2006295-298

62.pdf62-BT.pdf
Greinin í heild sinni er í skjali 62 hér að ofan og veggspjaldið í hinu pdf-skjalinu.

Inngangur

Gervihnattamyndir eru grundvöllur gróðurflokkunar Nytjalands. Nær allt yfirborð landsins hefur verið flokkað sem býður upp á margvíslega úrvinnslumöguleika til að kanna ýmsa þætti íslenskrar náttúru. Í þessari grein er gerð tilraun til að skoða núverandi gróðurmörk landsins eins og þau birtast í gróðurflokkuninni.

Náttúruleg gróðurmörk sveiflast fyrst og fremst eftir hitastigi, því hérlendis er það hiti sem er takmarkandi þáttur fyrir vöxt gróðurs en ekki úrkoma (Páll Bergþórsson 1996). Þó geta aðrir þættir verið afar mikilvægir, svo sem nýting á borð við beit, sem og áföll, t.d. gjóskufall. Hiti er talinn lækka um 0.6°C fyrir hverja 100 m hækkun þannig að því sem ofar dregur verða skilyrði fyrir vöxt gróðurs verri. Plöntur hafa mismunandi kjörhitastig til vaxtar, en bæði fjöldi mjög heitra daga og meðalhitastig mánaðar hafa þar áhrif (Páll Bergþórsson 1996). Langtíma hitaaukning skilar sér í vaxandi gróðurþekju og þar af leiðandi hærri gróðurmörkum og öfugt, en vistkerfi hafa þó þanþol (resilience) gagnvart breytingum í umhverfi. Staðbundnir þættir á borð við úrkomu, vindátt, halla lands og stefnu lands hafa áhrif á vöxt gróðurs og geta minnkað vægi hitans á vöxtinn (Hörður V. Haraldsson og Rannveig Ólafsdóttir 2003).

Gróðurmörk hafa sveiflast mikið frá lokum síðasta jökulskeiðs. Gróðurmörkin hækkuðu á hinum hlýjustu skeiðum, en þegar útbreiðsla gróðurs var í hámarki fyrir um 8000 – 7000 árum huldi gróður um 61% lands og meðalgróðurmörk hafa verið u.þ.b. 720 m sam¬kvæmt niðurstöðum Rannveigar Ólafsdóttur o.fl. 2001. Þorleifur Einarsson (1962) taldi að gróðurmörkin hafi verið hæst á nútíma fyrir um 4000 – 2500 árum og þá hafi skógarmörkin verið ofan 600 m.

Fyrir um 2500 árum fór veðurfar kólnandi og gróðurmörkin lækkuðu. Um landnám er landið talið vel gróið til fjalla og telur Steindór Steindórsson (1994) að þá hafi gróðurmörkin almennt verið a.m.k. í 400 – 600 m á hálendi landsins og víða hærri. Hann leiðir að því líkum að víða á vestanverðum Sprengisandi hafi verið gróið í 600 – 650 m hæð. Þá telur hann að um landnám hafi Vaðlaheiði verið algróin í 600 – 700 m hæð yfir sjó. Gróðurmörk á Vestfjörðum hafa að hans mati breyst lítið, en þar eru hlíðar víða lágar og brattar. Hann telur að ákveðin svæði landsins hafi ávallt verið lítt gróin s.s. Hofsafrétt norður af Hofsjökli.

Fyrir um 500 árum var loftslag mun kaldara en nú er og þá huldi gróður um 48% landsins sem þýðir að meðalgróðurmörk hafi verið um 500 m yfir sjó samkvæmt Rannveigu Ólafsdóttur o.fl. 2001. Bjartmar Sveinbjörnsson o.fl. (1993) telja efri mörk samfellds gróðurs á Íslandi nú í um 600 til 700 metra hæð , Rannveig Ólafsdóttir o.fl. (2001) telja hæstu núverandi gróðurmörk Íslands í um 700 m hæð á norðausturhluta landsins.

Samkvæmt tölvuspám mun hitastig á jörðinni hækka um 2 til 8°C næstu 100 árin (http://www.ipcc.ch/present/graphics/2001syr/ppt/05.23.ppt#1). Haraldur Ólafsson (2005) telur að hitastig muni hækka á Íslandi um 2 til 3 gráður næstu 100 árin. Hitinn mun hækka meira inn til landsins en við ströndina og úrkoma kemur til með að aukast. Ef þetta gengur eftir munu núverandi gróðurmörk á Íslandi hækka verulega.