Skipulag leiðbeininga í loðdýrarækt

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Jón Ragnar BjörnssonBÍ, RALA1985Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Ráðunautafundur198527-28

Loðdýrarækt er ný atvinnugrein á Islandi og í örum vexti. Framfarir eru miklar í loðdýrarækt í þeim löndum, sem hún er mest stunduð.

Markaðurinn fyrir grávöru er breytilegur, því eftirspurn er háð duttlungum tískunnar.

Þeir, sem hefja loðdýrarækt þurfa að afla sér grundvallar þekkingar á greininni. Sú þekking verður að miklu leiti að "Koma" til þeirra, þar sem flestir eru starfandi bændur og eiga vart heimangengt til þekkingaröflunar.

Þessi búgrein er samkeppnisbúgrein, sem selur afurðir sínar á heimsmarkaði. Því er nauðsynlegt að bændur tileinki sér nýungar, sem fram koma heima og erlendis, til að auka og bæta framleiðslu sína. Tískusveiflur valda því, að hver einstakur bóndi verður að fylgjast sem best með þeim breytingum, sem verða á markaðnum, til að geta aðlagað framleiðslu sína breyttum staðháttum.

Framfarir í loðdýrarækt byggja mjög á samstarfi og samkeppni bænda. Samstarfið liýtur t.d. að sameiginlegri fóðurframleiðslu, skinnaverkun og miðlun þekkingar. Félagsleg uppbygging er loðdýraræktinni því mikilvæg. Samkeppni miðar að því að bændur bera sinn árangur saman við aðra og finna hvar veikir hlekkir eru í framleiöslunni. Loðdýraræktin er háð umtalsverðum verðsveiflum afurða. Þeir, sem standa sig best í samkeppninni halda lengst út þegar að kreppir.

Að framansögðu er ljóst, að skipulag leiðbeininga þarf að vera með öðrum hætti en þekkt er í okkar hefðbundnu búgreinum.

Boðleiðir þurfa að vera sem stystar. Þetta þýðir að leiðbeiningaþjónustan þarf að vera beint á vegum loðdýrabænda, undir þeirra stjórn og á ábyrgð þeirra.