Kynbætur á háliðagrasi
Höfundur
Útgefandi
Útgáfuár
Útgáfustaður
Guðni Þorvaldsson
BÍ
1997
Reykjavík
Rit
Árgangur
Tölublað
Bls.
Bændablaðið
3
17
20
Háliðagras hefur verið notað í sáðblöndur hér á landi í nokkra áratugi, þó í mun minna mæli en vallarfoxgras. Háliðagras hefur ýmsa góða kosti. Það byrjar að spretta á undan öðrum grösum á vorin og gefur mikla uppskeru, líka í endurvexti. Þá getur það lifað lengi í túnum ef aðstæður henta því á annað borð. Háliðagras sprettur hins vegar fljótt úr sér og hrekst illa í óþurrkatíð. Þá hefur það verið viðkvæmara fyrir ryðsvepp en önnur grös. Það þarf því að slá háliðagrasið snemma til að það verði lystugt.
Með tilkomu rúllubaggatækninnar byrjuðu menn að slá túnin fyrr og tvísláttur varð algengari. Þessi tækni minnkaði einnig verulega hættuna á því að hey lenti í hrakningi. Þar með varð einnig háliðagrasið áhugaverðara túngras.
Sumarið 1994 hófust hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins kynbætur á háliðagrasi. Farið var á 100 bæi víðsvegar um landið til að safna háliðagrasplöntum. Í flestum tilvikum var safnað úr túnum sem eru eldri en 30 ára til að tryggja að grösin hefðu sannað lífsþrótt sinn við íslenskar aðstæður. Fyrsta veturinn voru plönturnar í gróðurhúsi, en vorið 1995 var þeim plantað út þannig að hægt væri að fylgjast með hverjum einstaklingi fyrir sig. Þetta voru 1500 einstaklingar, þrjú eintök af hverjum, samtals 4500 plöntur. Síðastliðin tvö sumur hafa þessar plöntur verið metnar með tilliti til uppskeru, vaxtarlags, skriðtíma og þols gegn sveppum. Á grundvelli þessa mats hafa verið valdar út plöntur til að mynda grunn að væntanlegum háliðagrasstofni eða stofnum. Þær verða á komandi vori fluttar á stað þar sem ekkert annað háliðagras er nálægt og látnar þroska fræ.
En er þó langt í land að íslenskur stofn af háliðagrasi líti dagsins ljós. Fyrst þarf að fá nægilegt fræ til að geta borið þennan efnivið saman við önnur yrki af háliðagrasi. Þetta háliðagras verður að vera betra en það sem fyrir er til að réttlætanlegt sé að halda áfram. Lokaskrefið er svo að fjölga því svo hægt sé að setja það á markað. Ef allt gengur eins og best verður á kosið gæti íslenskt háliðagras verið komið á markað eftir 5-7 ár.