Rofhraði mældur

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Sturla FriðrikssonBúnaðarfélag Íslands, Bændaskólinn á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, Tilraunastöð háskólans í meinafræði, Veiðimálastofnun1988Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Búvísindi13-10

gr-buv1-sf.PDF

Frá vefstjóra: Greinina í heild sinni er að finna í pdf-skjalinu hér að ofan

YFIRLIT

Mikil gróður- og jarðvegseyðing hefur orðið hér á landi síðastliðin 1100 ár frá því landnám hófst. Á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur verið reynt að mæla og lýsa hraða þessarar landeyðingar.

Víða má sjá rofabörð, til dæmis efst í Landsveit og á Rangárvöllum þar sem grónir bakkar standa eftir sem eyjar á 3 til 4 m þykkri jarðvegsundirstöðu en allt í kring er örfoka melur.

Til þess að kanna uppblásturshraða á þessu landi voru tveir grónir bakkar mældir nákvæmlega á árunum 1976 og 1987. Flatarmál gróðureyjanna minnkaði á þessu ellefu ára tímabili um svipaðan flöt og væru árlega brotnir 16 cm af öllum jöðrum bakkanna.

Með svipuðum eyðingahraða á öllum gróðursvæðum í síðastliðin 1100 ár hefðu að jafnaði þurft að vera til 125 000 km af jöðrum ef reiknað er með því að 20 000 km2 af grónu landi hafi eyðst frá landnámstíð. Reynt er að gefa mynd af því hvernig landeyðing þróast.

Eyðing jarðvegsjaðars er samt ekki eina orsök gróðurskemmda. Jarðvegurinn sem fýkur úr rofinu, skefur yfir nærliggjandi gróður, svíður hann og kæfir þar til sá gróður verður einnig undan að láta.


SUMMARY

Erosion rate measured

Serious erosion has taken place in Iceland during the 1100 years of occupancy. Attempts were made to describe and measure the rate of erosion at various locations.

At an inland vegetated area in southern Iceland erosion has left remnants of the old grassland standing like islands on a 3 to 4 m thick soil pedestal surrounded by barren gravel subsoil.

To obtain more accurate estimates of wind erosion the area of two such islands was measured twice in 1976 and again in 1987 at an interval of eleven years. The islands decreased in area at an average rate that equalled a removal of 16 cm from the edge per year. If the rate of erosion was comparable during the last 1100 years there would have been 125 000 km of erosion fronts to allow for a loss of 20 000 km2 of vegetation. A model of an erosion progression is shown in figures 3 and 4.

The deterioration at the edge of the vegetated area, however, is not the only erosion process, as the released soil also blows away to scorch and smother nearby grassland, which in turn is also eventually destroyed.


INNGANGUR

Sé litið yfir gróðurlendi á Íslandi sjást víða í því auðar skellur. Á mestu eldfjallasvæðum landsins, svo sem um miðbik þess, eru rof sérstaklega áberandi og örfoka auðnir víðáttumeiri en annars staðar á landinu. Á þessum slóðum má á stöku stað finna gróðurtorfur í auðnunum, er því eðlilegt að álíta, að mikið af hinum auðu berangurssvæðum í næsta nágrenni hafi einhvern tíma verið hulið jarðvegi og gróðri.

Um sum þessara auðnasvæða eru jafnvel til heimildir er benda til þess, að þau hafi áður verið klædd gróðri. Má til dæmis vitna í ummæli, sem víða koma fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1913) þar sem þeir geta um uppblástur og sandágang sem leggja jarðir í eyði í Landsveit og á Rangárvöllum.

Margir hafa orðið vitni að því að sjá land blása upp. Hafa athugulir menn ritað um gróðureyðingu fyrr á tímum. Gagnmerk heimild um uppblástur á 19. öld er grein Guðmundar Árnasonar í Múla, sem hann nefnir,Uppblástur og eyðing býla í Landsveit" (1958). Lýsir hann eyðingu skóga, sem voru ofarlega í Landsveit á 19. öld og nefndust Landskógar og telur hann skógana hafa eyðst á fimmtíu ára tímabili fyrir 1882. Á sama tíma fara þarna margar jarðir í eyði af völdum uppblásturs og sandfoks. Þessari landeyðingu lýsir einnig Jónas prestur Jónasson í Ísafold 19. ágúst 1885 á mjög greinagóðan hátt og telur þar einnig, að á fimmtíu árum hafi þessar kjarnmiklu sveitir á Suðurlandi orðið að ,,blásvörtu öskuflagi".

Á okkar dögum má einnig sjá, að sum rofabörð stækka og gróðurtorfur eyðast. Hins vegar er ekki kunnugt, að fylgst hafi verið það náið með jarðvegs- og gróðureyðingu á ákveðnu svæði með beinum mælingum, að unnt hafi verið að sannprófa hraða árlegrar gróðureyðingar. Sumarið 1976 var á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins leitast við að mæla uppblásturshraða á rofabörðum.