Þróun vistkerfa við landgræðslu. Mælingarnar á Geitasandi [veggspjald]

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Berglind Orradóttir, Ólafur Arnalds, Ása L. AradóttirBÍ, LbhÍ, L.r., S.r.2006Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Fræðaþing landbúnaðarins2006268-272

55.pdf55-BO-II.pdf
Greinin í heild sinni er í skjali 55 hér að ofan og veggspjaldið í hinu pdf-skjalinu.

Inngangur

Flest vistkerfi jarðar hafa orðið fyrir verulegum breytingum af manna völdum, meðal annars vegna jarðvegseyðingar (UNEP, 2002). Þetta þýðir að mikilvæg ferli vistkerfa, á borð við miðlun ferskvatns, eru skert (Palmer et al., 2004). Hér á landi hefur gróðureyðing og jarðvegsrof haft alvarlegar afleiðingar fyrir mörg íslensk vistkerfi (Ólafur Arnalds et al., 1997). Breytingar á vistkerfum landsins eru víðtækar og má þar nefna breytingar á tegundasamsetningu, frumframleiðni, vatnsbúskap, eðlis- og efnaþáttum jarðvegs, næringarefnahringrásum og frjósemi.

Vistheimt stuðlar að endurheimt vistkerfa, en hún getur einnig verið tæki til rannsókna á framvindu og þróun vistkerfa, oft á stærri mælikvarða en annars er mögulegt (Jordan et al., 1987). Hér á landi er bæði mikil þörf og miklir möguleikar til rannsókna á vistheimt og endurreisn vistferla. Vegna þess að gosefni veðrast hraðar en flest önnur móðurefni jarðvegs má einnig búast við að breytingar á jarðvegi séu örari hér en víða annarsstaðar. Þetta gerir rannsóknir á þróun jarðvegs og breytingum á virkni vistferla í kjölfar uppgræðslu hér á landi sérlega áhugaverðar.

Rannsóknaverkefnið „Þróun vistkerfa við landgræðslu“, eða „Vistland“, hófst árið 2005. Markmið verkefnisins er að ákvarða samhengi á milli þróunar jarðvegs og gróðurs annars vegar, og grundvallareiginleika og ferla vistkerfa á fyrstu stigum vistheimtar hins vegar. Verkefnið byggir á þverfaglegri nálgun og skiptist í eftirtalda meginþætti: 1) næringar-hringrás og lífmassi; 2) vatnsbúskapur; 3) kulferli (áhrif frosts) og yfirborðsstöðugleiki; 4) jarðvegsþættir og jarðvegsmyndun; og 5) gróðurþættir.

Verkefnið nýtir sér hið einstæða „Landbótarsvæði“ á Geitasandi á Rangárvöllum, sem komið var á fót til margvíslegra rannsókna tengdum landgræðslu af rannsóknateymi af mörgum stofnunum undir stjórn Guðmundar Halldórssonar (S.r.). Þar hafa farið fram margvíslegar rannsóknir á gróðurframvindu (Ása L. Aradóttir & Guðmundur Halldórsson, 2004), líffræði landgræðslusvæða (t.d. Edda S. Oddsdóttir, 2002), auk rannsókna á jarðvegsþáttum o.fl. (Ása L. Aradóttir o.fl., 2005).

Verkefnið felur í sér uppbyggingu á margvíslegum tækjabúnaði. Hér verður aðeins sagt frá hluta þeirra mælinga sem gerðar eru í verkefninu og fyrstu niðurstöður kynntar.