Fita í fóðri eldisgrísa
 |
Höfundur | Útgefandi | Útgáfuár | Útgáfustaður |
Birna Baldursdóttir, Guðjón Þorkelsson, Þyrí Valdimarsdóttir, Rósa Jónsdóttir | BÍ, RALA | 1997 | Reykjavík |
 |  |  |  |
Rit | Árgangur | Tölublað | Bls. |
Ráðunautafundur | 1997 | | 276-286 |
 |  |  |  |
 |  |  |  |

INNGANGUR
Fóðrið er stærsti kostnaðarliðurinn við framleiðslu svínakjöts. Hérlendis hefur það færst í aukana að svínabændur blandi fóðrið heima. Með heimablöndun gefst kostur á að nýta ódýrustu fóðurefnin hverju sinni. Algengt er að heimablandað fóður sé samsett úr byggi, fiskimjöli, fitu og vítamín-/steinefnablöndu.
Eldissvínafóður þarf að innihalda visst magn af orku til að svara þörfum grísanna til viðhalds og vaxtar. Hérlendis eru þrjár fitutegundir notaðar sem orkugjafar í eldissvínafóður, þ.e. hert lýsi, lambamör og sojaolía. Lambamörinn hefur verið ódýrasti orkugjafinn undanfarið og þeir svínabændur sem blanda sitt eigið fóður með fitu nota því lambamör ef mögulegt er. Hert lýsi hefur hins vegar verið notað í tilbúnar fóðurblöndur um langt skeið en undanfarið hefur þó dregið úr notkun þess.
Gera þarf ákveðnar kröfur um gæði fóðurfitunnar en þær eru mismunandi eftir uppruna fitunnar. Í Danmörku eru sett hámarksgildi fyrir innihaldi fitu af t.d. vatni, óhreinindum, óbundnum fitusýrum og löngum fitusýrum (Mortensen og Bejerholm, 1986). Magn fitusýra hefur mikil áhrif á orkugildi fitunnar og kröfur eru gerðar um að fitusýrur séu minnst 85% af fitunni.
Fóðurfita hefur bein áhrif á samsetningu fitu hjá einmaga dýrum því ómettaðar fitusýrur úr fóðri eru ekki mettaðar með hjálp örvera, líkt og gerist í vömb jórturdýra, heldur safnast þær upp í forðafitu svínanna (Jakobsen, 1993). Þéttleika fitunnar má rekja beint til fitusýrusamsetningu, en fita verður linari með auknum fjölda tvíbindinga (Stryer, 1981). Joðtala er mælikvarði á þéttleika fitunnar og ef joðtala í forðafitu svína er hærri en 70 getur það rýrt vinnslugæði og geymsluþol afurðanna.
Lengd og mettunarhlutfall fitusýranna hefur áhrif á meltanleika fitunnar. Þannig minnkar meltanleiki fitusýra með aukinni keðjulengd, en hins vegar eru ómettaðar fitusýrur auðmeltari en þær mettuðu (Lewis og Hill, 1983). Samkvæmt Stahly (1984) er meltanleiki fitu mjög háður fitusýrusamsetningunni, þ.e. hlutfalli ómettaðra fitusýra á móti mettuðum fitusýrum (Ó/M). Ef hlutfallið Ó/M er hærra en 1,5 þá er meltanleiki fitunnar hár, eða 85-92%. Hins vegar ef hlutfallið er 1,0-1,3 þá minnkar meltanleikinn og þar með magn meltanlegrar orku í fitunni.
Margt bendir til að nú þurfi að huga betur en áður að gæðum svínakjöts. Undanfarin tvö ár hefur kvörtunum fjölgað frá sláturhúsum, kjötvinnslustöðvum og neytendum vegna slakra afurða úr svínakjöti. Er þar um að ræða mikla fitusöfnun grísanna, en einnig hefur þéttni fitunnar verið ábótavant, hún of lin og því erfið í vinnslu. Þar að auki hefur verið kvartað yfir aukabragði úr hrápylsum og úr reyktu og söltuðu svínakjöti. Í ljósi þess að mismunandi fitutegundir henta misvel í fóður fyrir eldissvín er mjög aðkallandi að kanna áhrif þeirra á vaxtarhraða, fóðurnýtingu, þrif grísanna og síðast en ekki síst áhrif fóðurfitu á gæði afurðanna.
Í eftirfarandi fóðurtilraun var gerður samanburður á tveimur algengustu fitutegundunum sem notaðar eru hérlendis í eldissvínafóður. Markmið verkefnisins var að meta gildi herts lýsis og lambamörs sem orkugjafa fyrir eldissvín.
Fóðurtilraun þessi var gerð í rannsóknastofu fyrir búfé á Keldnaholti og styrkt af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA), Tæknisjóði Rannsóknarráðs Íslands og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Aðrir styrktar- og samstarfsaðilar verkefnisins voru Svínaræktar-félag Íslands og Mjólkurfélag Reykjavíkur. Tilraunin var unnin í samvinnu fóður- og fæðudeildar RALA.
EFNI OG AÐFERÐIR
Dýr og fóður
Fóðurdeild Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) sá um þann hluta tilraunarinnar er snerti dýr, fóður og fóðrun. Fæðudeild RALA hafði umsjón með þeim hluta er snerti sláturskrokka, gæðamælingar, fitusýrugreiningar og skynmat. Fóðrunartilraunin fór fram í rann-sóknastofu fyrir búfé hjá RALA á Keldnaholti við Reykjavík. Tuttugu og fjórir grísir af íslenskum stofni (12 gyltur og 12 vanaðir geltir) voru fengnir frá svínabúi í samráði við Svínaræktarfélag Íslands. Við komu í rannsóknastofu á Keldnaholti voru grísirnir 13-14 vikna gamlir og meðalþunginn var 38,6 kg. Á búinu höfðu grísirnir fengið smágrísafóður frá Fóðurblöndunni hf. með 12,5% fiskimjöli.
Gefnar voru þrjár tegundir af fóðri í tilrauninni. Ein fóðurtegundin var notuð sem viðmiðun (grunnfóður) og var hún án íblöndunar fitu. Hinar tvær fóðurtegundirnar voru byggðar á grunnfóðrinu en íblöndunarfitan var annars vegar 5% lambamör og hins vegar 5% hert lýsi (sjá 1. töflu).
Fóðurblöndurnar voru lagaðar hjá Mjólkurfélagi Reykjavíkur en fituíblöndun fór fram á RALA. Þar var lambamör og hertu lýsi úðað í fóðrið með loftpressu. Fiskimjölið var eldþurrkað frá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Mjölið var fitulítið, eða 2,2% feitt, og prótínmagn var 73,7% í þurrefni. Magn ösku í þurrefni var 25,4% og þurrefnið var 91,5%. Herta lýsið var Feedrol B (harðfeiti) með bræðslumark 32-34°C frá Lýsi hf. í Reykjavík. Lambamör frá Sláturfélagi Suðurlands og Kjötumboðinu hf. var bræddur og blandaður í jöfnum hlutföllum. Blöndurnar voru á mjölformi en bleyttar upp fyrir fóðrun.
1. tafla. Samsetning tilraunarfóðurs (%).

Eldistilraunin fór þannig fram að hver fóðurtegund var gefin í tvær stíur. Fjórir grísir gengu saman í stíu og fengu sama fóður, en hver sinn fóðurskammt. Hver grís var notaður sem endurtekning og voru því átta endurtekningar fyrir hverja fóðurtegund. Niðurröðun grísanna í stíur var tilviljanakennd, en einnig var tekið tillit til systkinahópa og kyns grísa. Allt fóður var vigtað í grísina og þeir vigtaðir vikulega á tilraunartímabilinu.
Í 2. töflu má sjá fjölda grísa í hverjum hópi og meðalþyngd við komu í rannsóknastofu á Keldnaholti. Einnig má sjá þunga grísanna við upphaf tilraunar en áður höfðu þeir fengið tveggja vikna tíma til að venjast nýju fóðri og umhverfi. Tilraunin stóð í 9 vikur.
2. tafla. Fóðurgerðir, fjöldi grísa í stíu, meðalþyngd grísa, ásamt staðalfráviki, við komu í rannsóknastofu fyrir búfé á Keldnaholti og við upphaf tilraunar.

Á tilraunartímabilinu voru grísirnir fóðraðir tvisvar sinnum á dag samkvæmt fóðrunarkúrfu. Daglegt fóðurmagn (FEs/grís/dag) var ákvarðað vikulega út frá meðalþunga í tilraun. Viðmiðunartölur fyrir þyngd og fóðureiningar sem notaðar voru í tilrauninni eru sýndar í 3. töflu. Þar er gefinn upp meðalþungi grísanna við upphaf hverrar tilraunarviku. Meðalþungi í lok 9. viku var 85 kg.
3. tafla. Meðalþyngd grísa og fóðurmagn (FE s/grís/dag) í hverri viku tilraunar.

NIÐURSTÖÐUR OG UMRÆÐUR
Fóður
Í 4. töflu má sjá efnainnihald í fóðurblöndunum.
4. tafla. Efnainnihald (% í þurrefni (þe.)) og orka (FEs/100 kg þe.) í tilraunarfóðurblöndum.

Eins og 4. tafla sýnir er efnainnihald í blöndum með lambamör og hertu lýsi mjög sambærilegt að tréni undanskildu. Skýring á mismun í tréni er líklega ójöfn blöndun grófra og fínna kornþátta. Magn fitu, prótíns og orku er jafnt, en það skiptir mestu máli fyrir vöxt grísanna. Orkumagn í blöndunum er reiknað út frá efnainnihaldi samkvæmt jöfnunni:
Nettóorka, MJ/kg þurrefni = 0,75 × breytiorka, MJ/kg þurrefni - 1,883
Breytiorkan fæst með því að margfalda meginefnin (prótín, fitu, tréni og NFE) með tilheyrandi meltingar- og orkustuðlum (DS, 1996).
Í 5. töflu sést EFOS-gildi fóðurblandnanna og orkugildi fóðursins reiknað út frá því. EFOS (Enzym Fordøjeligt Organisk Stof) er ný aðferð við orkumat. Hún byggir á in vitro mælingu á meltanleika og með henni er hægt að meta orkugildi án þess að nákvæm samsetning fóðurblandna liggi fyrir.
5. tafla. EFOS-gildi* tilraunarfóðursins og orkumagn blandnanna samkvæmt því.

Við samanburð á 4. og 5. töflu sést að svipað orkugildi (FEs/100 kg þurrefnis) fæst fyrir blönduna með herta lýsinu. Hins vegar er orkan í grunnblöndunni hærri og í tólgarblöndunni lægri með EFOS-greiningunni. Skýring á orkumun í blöndu með lambamör er sú að EFOS-gildið fyrir lambamörsblönduna er lágt, sem sýnir að þessi blanda er ekki eins auðmelt og hinar blöndurnar. Þetta kemur heim og saman við lægri meltanleika mörs vegna lágs hlutfalls ómettaðra á móti mettuðum fitusýrum. Eins ber þessu saman við niðurstöður fyrri tilraunar en þar dró 10% íblöndun lambamörs marktækt úr vexti eldisgrísa (Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson, 1995). Ástæðan fyrir hærra orkugildi í grunnblöndunni, þegar notuð er EFOS-aðferðin, er væntanlega sú að hráefnin eru auðmeltari en meðaltals meltingarstuðlar gera ráð fyrir.
Gæðamælingar á íblöndunarfitu sýndu að gildi fyrir lambamör voru öll innan viðmiðunarmarka og samkvæmt þeim er sú lambamör sem notuð var í tilrauninni góður fitugjafi. Gildin fyrir herta lýsið voru einnig í lagi að undanskildu joðtölugildi sem var of hátt (90 í stað 80 að hámarki). Það að joðtalan skuli vera þetta há eykur möguleg neikvæð áhrif herta lýsisins á afurðirnar.
Við fitusýrugreiningu kom í ljós að hlutfall óþekktra fitusýra var hátt í herta lýsinu. Fleiri viðmiðunarsýni hefði þurft til að geta greint fleiri fitusýrur, en líklegt er að í óþekkta hlutanum séu trans ísómerur og fitusýrur með ónáttúrulega staðsetningu tvítengja. Lambamör er mjög hörð fita enda hlutfall mettaðra fitusýra hátt og hlutfall ómettaðra á móti mettuðum fitusýrum (Ó/M) því lágt, eða 0,7. Eins og fjallað var um í inngangi ræðst meltanleikinn að verulegu leyti af þessu hlutfalli. Samkvæmt því má reikna með því að lambamörinn hafi nýst mun verr en herta lýsið sem var með Ó/M=1,9.
Vaxtarhraði
Við upphaf tilraunar var meðalþunginn sá sami, 47 kg, á fóðurtegundunum þremur. Daginn fyrir slátrun var meðalþungi grísa á grunnblöndu 83,8 kg, meðalþungi grísa á blöndu með lambamör var 85 kg og grísir sem fengu blöndu með hertu lýsi vógu 86,6 kg að meðaltali. Á fyrra tímabili tilraunar, frá 16 til 20 vikna aldurs, var meðalvaxtarhraði allra grísa 565 g á dag. Meðalvaxtarhraði allra grísa á seinna tímabilinu, frá 20 til 25 vikna aldurs, var 645 g á dag.
Í tilrauninni var vaxtarhraði grísanna ekki frábrugðin milli fóðurmeðferða. Í tilraun sem gerð var á RALA 1993 (Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson, 1995) hafði 10% lambamör marktæk neikvæð áhrif á vöxt eldisgrísa. Miðað við að 5% lambamör hefur engin áhrif á vöxt grísa og að 10% lambamör dregur marktækt úr vexti grísa er ekki ráðlagt að nota meira en 5% lambamör í fóðri eldisgrísa. Hert lýsi hefur ekki marktæk áhrif á vaxtarhraða grísanna, hvorki í þessari né fyrri tilraun sem vísað er í hér á undan.
Fóðurnýting
Fóðurmeðferð hafði ekki marktæk áhrif á fóðurnýtingu grísanna. Þó var tilhneiging til að grísirnir nýttu fóðrið með herta lýsinu betur en grunnfóðrið, sérstaklega á fyrri hluta tilraunar. Meðalfóðurnýting allra grísa á fyrri hluta tilraunar var 3,72 og 3,83 FEs/kg á seinni hluta. Það er því ljóst að nýting fóðurs var undir meðallagi. Hins vegar var ekki marktækur munur á nýtingu fóðurblandnanna þriggja í tilrauninni. Þó var tilhneiging til að grunnblandan gæfi verstu fóðurnýtinguna, en líkleg skýring á því er minni kornastærð og að almennt bætir 3-5% fituíblöndun fóðurnýtinguna.
Sláturskrokkar
Fóðurmeðferð hafði engin áhrif á þyngd grísa, þyngd skrokka, kjötprósentu, innyflaþunga né sýrustig í hryggvöðva. Aðeins var munur á þyngd hausa eftir fóðurmeðferð og voru grísir sem fengið höfðu hert lýsi með þyngstu hausana en þeir sem fengu grunnblöndu þá léttustu. Ekki er vitað um skýringu á þessum mun. Þyngd grísanna við slátrun var að meðaltali 85,1 kg og þyngd sláturskrokka 64,2 kg. Kjötprósenta sem er prósenta sláturþunga af lifandi þunga var 75,1%. Sýrustig var eðlilegt í öllum 24 skrokkunum og vatnsvöðvi fannst ekki.
Fóðurmeðferð hafði engin áhrif á skrokkgæðin en skrokkarnir voru almennt feitir. Fita á hrygg (F1) var að meðaltali 23,1 mm og fita á bóg (F2) 39,5 mm. Einn skrokkur af tuttugu og fjórum fór í úrvalsflokk, tveir í A flokk, níu í B flokk og tólf í C flokk. Þetta bendir til þess að grísirnir hafi við slátrun verið komið vel fram yfir besta sláturtíma miðað við þroska og vaxtarhraða þessa kyns. Líklega hefur hægur vaxtarhraði grísanna í byrjun, vegna breytinga á umhverfi þeirra, haft áhrif til aukinnar fitusöfnunar og um leið minni fóðurnýtingar og vaxtarhraða.
Joðtala
Af 1. mynd má sjá áhrif fóðurs á joðtölu í bakfitu tilraunargrísanna. Meðaltalsgildi joðtölu var 61,9 í bakfitu grísa fóðruðum á grunnblöndu, 64,7 í bakfitu grísa sem fengu blöndu með lambamör og 72,5 í bakfitu grísa fóðruðum á blöndu með hertu lýsi.

1. mynd. Áhrif fóðurs á joðtölu í fituvef.
1:Viðmiðunarhópur; 2: Lambamör; 3: Hert lýsi.
Joðtala er mælikvarði á þéttleika fitunnar og joðtala í fituvef má ekki fara yfir 70 (DS, 1989). Ef joðtala er hærri en 70 er fitan of lin og líkleg til þránunar. Af 1. mynd sést að joðtala í bakfitu grísa sem fengu fóður með hertu lýsi er töluvert hærri en annarra grísa. Joðtalan er einnig yfir viðmiðunargildinu og því mikil hætta á að fita frá grísum sem fengu hert lýsi henti illa til vinnslu og þráni fljótt.
Fitusýrugreiningar
Fitusýrugreining á bakfitu tilraunargrísanna sýndi að marktækur munur var á magni allra fitusýra milli fóðurhópa. Of hátt hlutfall línólsýru (18:2n-6) í bakfitu hefur verið notað sem vísbending um of lina fitu. Miðað hefur verið við að hlutfall hennar fari ekki yfir 9,2% af heildarfitusýrum. Hlutfallslegt magn línólsýru var vel undir 9,2% í svínum sem fengu grunnfóður og fóður með lambamör. Í svínum sem fengu hert lýsi var hlutfall hennar í hærra lagi, eða 8,9% að meðaltali.
Aukabragð eða fiskibragð hefur verið tengt of háu hlutfalli EPA (eicosapentaenoic acid), DPA (docosapentaenoic acid) og DHA (docosaheptaenoic acid) í bakfitu. Miðað hefur verið við að samanlagt magn þeirra eigi að vera undir 1,5% til að koma í veg fyrir aukabragð af beikoni (Coxon o.fl., 1986). Einnig hefur verið miðað við að hlutfall DPA og DHA eigi að vera undir 1% (Hertzman o.fl., 1988). Í öllum hópum voru niðurstöður vel undir þessum viðmiðunargildum.
Niðurstöðum á joðtölu og fitusýrugreiningum ber ekki alveg saman hvað varðar herta lýsið. Viðmiðanir fyrir fitusýrugildi benda til að herta lýsið valdi ekki of linri fitu, en aftur á móti er joðtala úr fituvef grísa sem fengu hert lýsi of há sem bendir til hins gagnstæða. Í eldri tilraun (Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson, 1995) fengust sambærilegar niðurstöður. Joðtala, reiknuð út frá fitusýrugreiningu, var þó nokkuð lægri en mæld joðtala í þeim tilvikum þar sem fóðrað var með hertu lýsi. Mismunur á reiknaðri og mældri joðtölu var aftur á móti lítill sem enginn í öðrum tilraunarhópum. Lagt hefur verið til að hlutfall fjölómettaðra fitusýra ætti að vera minna en 12,5%±0,8% til að draga úr hættunni á linri fitu (Rósa Jónsdóttir, 1997). Þegar fóðrað er með hertu lýsi er hugsanlegt að einhver myndefni herslunnar greinist ekki í fitusýrugreiningum, en valdi engu að síður hækkun á joðtölu og linari bakfitu. Í þeim tilvikum bendir allt til þess að kröfurnar um hlutfall fjölómettaðra fitusýra þurfi að vera strangari.
Skynmat
Niðurstöður skynmats á fersku kjöti sýndu að ekki var munur á meyrni, safa, kjötbragði né súru bragði milli tilraunarhópa. Herta lýsið hafði hins vegar marktæk neikvæð áhrif á bragð af kjöti og fitu. Í kjötsýnum frá grísum fóðruðum á hertu lýsi mældist marktækt meira aukabragð samanborið við kjöt frá grísum fóðruðum á grunnblöndu. Fitusýni frá grísum á hertu lýsi gáfu marktækt meira aukabragð en fitusýni bæði frá grísum á grunnblöndu og grísum á blöndu með lambamör. Gildin fyrir aukabragð voru ekki há en munurinn samt mælanlegur.
Heildarmagn fiskifitu í blöndu með 9% fiskimjöli var 2 g í kg fóðurs. Þessi fóðurmeðferð hafði ekki neikvæð áhrif á bragðgæði og gildi fyrir joðtölu og fitusýrur voru í lagi. Í norskri rannsókn (Kjos, 1995) voru könnuð áhrif fóðurs með 2, 5 og 9 g/kg af fiskifitu á bragðgæði svínakjöts. Þær niðurstöður sýndu að 2 g af fiskifitu höfðu ekki áhrif á bragðgæði kjötsins, en hins vegar ollu 5 g neikvæðum áhrifum á bragðgæðin. Þetta er í samræmi við niðurstöður þessarar tilraunar og líklegt er að mörkin fyrir heildarmagn fiskifitu í fóðri liggi einhvers staðar milli 2 og 5 g/kg. Þetta þarf að rannsaka nánar.
Niðurstöður skynmatsins eru í samræmi við niðurstöður fyrri tilraunar með áhrif fiskimjöls og fóðurfitu á bragðgæði og efnasamsetningu svínakjöts. Í þeirri tilraun var notað 12% fiskimjöl (með 5,6% fitu í þurrefni) og 10% fóðurfita (Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson, 1995). Áhrifin voru skoðuð nánar í verkefni Rósu Jónsdóttur til meistaraprófs í matvæla-fræði við Háskóla Íslands (Rósa Jónsdóttir, 1997). Helstu ályktanir voru að íblöndun hert lýsis ásamt fiskimjöli hafði greinlega neikvæð áhrif á bragðgæði kjötsins og þá sérstaklega eftir 7 mánaða geymslu í frysti við -20°C. Enginn marktækur munur var á bragðgæðum annarra hópa.
Við herslu á lýsi myndast margar gerðir aldehýða, hugsanlega einhver sem ekki myndast í ómeðhöndlaðri fitu og gætu þau verið ábyrg fyrir auknu óbragði. Það hefur ekki verið rann-sakað og því ekki hægt að fullyrða mikið. Í eldri tilraun (Birna Baldursdóttir og Guðjón Þor-kelsson, 1995) virtist vera í lagi að nota 12% fiskimjöl án fitugjafa og 12% fiskimjöl með 10% tólg. Erlend viðmiðunargildi fyrir fitusýrurnar EPA, DPA og DHA eru 1,5% í hryggfitu og 1,0% fyrir DPA og DHA. Samkvæmt sænskum heimildum (Lundström og Bonneau, 1996) má magn DPA og DHA í fóðri ekki fara yfir 0,015%. Fita af grísum sem fengu blöndu með 12% fiskimjöli og 12% fiskimjöli og tólg fóru yfir þessi mörk án þess að það kæmi niður á bragðgæðum. Sama er að segja um fóðrið. Íslenskir neytendur eru ef til vill ekki eins næmir á áhrif fiskimjöls í svínafóðri á bragð kjötsins og sænskir neytendur.
Í þeirri tilraun er þessi grein fjallar um var hvergi farið yfir viðmiðunarmörk fyrir EPA, DPA og DHA í svínafitu og fóðri. Gildin eru alls staðar lág. Hins vegar er það herta lýsið sem enn hefur neikvæð áhrif á ferskt kjöt þótt notað væri helmingi minna af því en í fyrri tilrauninni og að fiskimjölið væri meira en helmingi fituminna en áður. Hugsanlega eru það umrædd aldehýð sem valda þessu. Það vekur athygli að peroxíðgildi og totoxgildin, sem eru mælikvarði á myndefni þránunar ,eru frekar há í herta lýsinu. Þetta þyrfti að rannsaka nánar.
ÁLYKTANIR
Niðurstöður efna- og gæðamælinga á íblöndunarfitu sýna að hreinn lambamör eins og notaður var í tilrauninni er mjög sambærilegur við uppgefin dönsk gildi fyrir dýrafitu. Hins vegar ber að nefna að sú dýrafita sem notuð er hérlendis í fóður svína er frábrugðin þessum hreina lambamör vegna breytilegs hráefnis og því er nauðsynlegt fyrir kaupanda að fá staðfestingu á gæðum fitunnar reglulega. Ekki var hægt að bera herta lýsið við erlend viðmiðunargildi þar sem hert lýsi er ekki notað í svínafóður erlendis svo vitað sé.
Greiningar á meltanleika fóðurblandnanna gáfu til kynna að lambamörinn hefði lægri meltanleika en herta lýsið. Það er í samræmi við niðurstöður fitusýrugreininga sem sýna að hlutfall ómettaðra á móti mettuðum fitusýrum (Ó/M) er mjög lágt í lambamör, eða 0,7 á móti 1,9 í hertu lýsi. Vitað er að ef hlutfallið er 1,5 eða hærra er meltanleikinn hár (85-92%) og að með lækkandi hlutfalli fer meltanleikinn sömuleiðis lækkandi. Þetta er einnig í samræmi við niðurstöður fyrri tilraunar sem gerð var hér á RALA, en þar dró 10% lambamör marktækt úr vaxtarhraða grísanna. Með hliðsjón af niðurstöðum á meltanleika lambamörs í þessari tilraun og öðrum er mælt með að takmarka notkun lambamörs við 5-6% í blöndur fyrir eldisgrísi.
Vaxtarhraði og fóðurnýting grísanna var óháð fóðurmeðferð. Sláturskrokkar grísa úr öllum meðferðarhópum voru feitir en enginn munur var á þunga þeirra, sýrustigi, nýtingu né verðmæti eftir úrbeiningu.
Fóðurmeðferð hafði marktæk áhrif á joðtölu í bakfitu tilraunargrísanna. Í bakfitu frá grísum sem fengu hert lýsi var joðtalan 72,5. Þar sem hámarksgildið er 70 þýðir þetta að fitu frá grísum fóðruðum á hertu lýsi hættir til þránunar og vinnslugæðin eru lakari.
Fitusýrusamsetning í bakfitu grísanna var frábrugðin milli fóðurmeðferða. Niðurstöðum á joðtölu- og fitusýrugreiningum ber hins vegar ekki saman hvað varðar herta lýsið. Viðmiðanir fyrir fitusýrugildi benda til að herta lýsið valdi ekki of linri fitu, en hins vegar er joðtala úr fituvef grísa fóðruðum á hertu lýsi of há sem bendir til hins gagnstæða. Hugsanleg skýring á þessu ósamræmi eru óþekktar fitusýrur og myndefni þránunar. Þetta bendir til að viðmiðunargildi fyrir fitusýrur þurfi að vera lægri þegar fóðrað er með hertu lýsi.
Fóðrun með 5% hertu lýsi, ásamt 9% fiskimjöli, hafði marktæk neikvæð áhrif á bragðgæði kjötsins. Hins vegar hafði grunnblandan með 9% fiskimjöli ekki neikvæð áhrif á bragðgæðin, en þar var heildarmagn fiskifitu 2 g í kg fóðurs. Eins voru gildi fyrir joðtölu og fitusýrur í lagi fyrir grunnblönduna. Í nýlegri norskri rannsókn voru efri mörkin sett við 2 g af heildarfiskifitu í kg fóðurs handa sláturgrísum. Samkvæmt þessu er mælt með að takmarka heildarmagn af fiskifitu í fóðri eldisgrísa fram að slátrun við 2 g í kg þurrfóðurs. Þetta þýðir að ef um er að ræða 10% feitt mjöl þá má gefa sláturgrísum 2% af því. Þá má alls ekki nota annað sjávarfang í fóðrið. Finna þarf efri mörkin fyrir heildarmagni af fiskifitu í fóðri en þau liggja líklega einhvers staðar milli 2 og 5 g/kg.
HEIMILDALISTI
Birna Baldursdóttir & Guðjón Þorkelsson, 1995. Áhrif fiskimjöls og fitu á gæði svínakjöts. Fjölrit Rala nr. 177. Rannsóknastofnun landbúnaðarins, 30 bls.
Coxon, D.T., K.E. Peers & N.M. Griffiths, 1986. Recent observations on the occurrence of fishy flavour in bacon. J. Sci. Food Agric. 37 (9): 867-872.
DS (Danske Slagterier), 1989. Foderstoffer til svin. Bls. 7.1. Landsudvalget for svin, DS. København.
DS (Danske Slagterier), 1996. Foderstoffer til svin. Bls.2.02. Landsudvalget for svin, DS. København.
Hertzman, C., L. Göransson & H. Rudérus, 1988. Influence of fishmeal, rape-seed, and rape-seed meal in feed on the fatty acid composition and storage stability of porcine body fat. Meat Sci. 23 (1): 37-53.
Jakobsen, K., 1993. Nutritional prospects of increasing omega-3 fatty acids in animal production. Í: A Challenge to Future Fodd Production. Proceedings of a Minisymposium organized in connection with the 44th Animal Meeting of the European Association for Animal Production. Foulum, Denmark, bls. 69-87.
Kjos, N.P., 1995. Utnyttelse av fiskebiprodukter til ulike dyreslag. Í: Nordisk Jordbruksforskning 77(2). Nord-iskt lantbruk i det nya Europa. XX:e kongress Reykjavik 26-29 juni 1995. Nordiska Jordbruksforskares Förening, bls. 171.
Lewis, D. & K.J. Hill, 1983. The provision of nutrients. Í: Rook, J.A.F. & P.C. Thomas: Nutritional Physiology of Farm Animals. Longman, bls. 3-40.
Lundström, K. & M. Bonneau, 1996. Off-flavour in meat with particular emphasis on boar taint. Í: S.A. Taylor, A. Raimundo, M. Sverini & F.J.M. Smulders (ritstj.): Meat quality and meat packaging. ECCEAMST.III.
Mortensen, H.P. & C. Bejerholm, 1986. Kvalitetskriterier for fedt til slagtesvin. Beretning fra Statens Husdyr-brugsforsøg nr. 611. København, 45 bls.
Rósa Jónsdóttir, 1997. Áhrif fóðurfitu á svínakjöt, skoðuð með fitusýrugreiningum, skynmati og fjölbreytutölfræði. M.S. ritgerð í matvælafræði. Háskóli Íslands.
Stahly, T.S., 1984. Use of fats in diets for growing pigs. Í: Wiseman, J. (ritstj.): Fats in Animal Nutrition. Butterworths, bls. 313-331.
Stryer, L., 1981. Biochemistry. 2. útg. W.H. Freeman & Company, New York, 949 bls.
|
|
|