Fitulítið fiskimjöl í fóðri eldisgrísa

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Birna Baldursdóttir, Rósa Jónsdóttir, Þyrí Valdimarsdóttir, Guðjón ÞorkelssonBÍ, BSK, RALA1999Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Ráðunautafundur1999227-234

bb.doc

INNGANGUR
Samsetning amínósýra í fiskimjöli, ásamt háum meltanleika þeirra, gerir það að verkum að fiskimjöl er einn besti próteingjafi sem völ er á í svínafóður. Hins vegar er vitað að of mikil fiskifita hefur neikvæð áhrif á gæði svínakjöts. Þekkt er að fiskifita í fóðri eldisgrísa getur rýrt bæði vinnslugæði og geymsluþol svínafitunnar (Miller o.fl. 1990, Hertzman o.fl. 1988). Neikvæð áhrif fiskimjöls á afurðir úr svínakjöti má aðallega rekja til mjölfitunnar. Í fiskimjölsfitu er umtalsvert magn langra fjölómettaðra fitusýra, sérstaklega ómega-3 fitusýranna EPA (eikó-sapentaen) og DHA (dókósahexaen). Melting einmaga dýra eins og svína gerir það að verkum að fitusýrur í fóðri eru teknar beint upp og safnast fyrir í forðafitu. Þéttleika hryggjarfitunnar má einnig rekja til fjölómettuðu fitusýranna, en fita verður linari með auknum fjölda tvíbindinga (Stryer 1981). Vegna þessara eiginleika mjölfitunnar er fiskimjöl almennt ekki notað í fóðri sláturgrísa í helstu svínaræktarlöndum heims. Það er hins vegar gert á Íslandi og hefur íslensk svínarækt því nokkra sérstöðu hvað þetta varðar. Leggja verður áherslu á að það fiskimjöl sem erlendis er notað inniheldur oft 12% fitu, sem telst mjög fituríkt mjöl á okkar mælikvarða. Hérlendis er úrval fiskimjöls mun fjölbreyttara og hægt er að fá fiskimjöl með allt frá 2% upp í 12% fitu. Það er því ljóst að hér er ekki verið að tala um sama hráefnið. Þegar tekið er tillit til gæða afurða er æskilegt að nota fitulítið fiskimjöl í fóður eldisgrísa. Vinnsla á skinku og pepperónípylsum hefur stóraukist, en í þessa framleiðslu er einungis hægt að nota kjöt og fitu í hæsta gæðaflokki þar sem vinnsluferli hrápylsna eykur mjög hættu á þránun.

Markmiðið með þessu verkefni var að finna mesta magn fiskifitu sem nota mætti í fóður eldisgrísa, án neikvæðra áhrifa á gæði afurða. Fjórar fóðurblöndur með mismiklu magni af fiskifitu voru lagaðar og bornar saman.

Rannsóknin var samstarfsverkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Svínaræktarfélags Íslands, Mjólkurfélags Reykjavíkur og Kjötumboðsins. Hún var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins og Tæknisjóði Rannsóknarráðs Íslands.

EFNIVIÐUR
Eldistilraunin fór fram í rannsóknastofu fyrir búfé hjá RALA á Keldnaholti. Í tilrauninni voru 24 grísir, blendingar af norska og íslenska svínastofninum. Grísirnir voru 11-12 vikna og vógu um 30 kg að meðaltali við upphaf aðlögunartímabils á RALA. Í byrjun aðlögunar fengu grísirnir samskonar fóður og þeir höfðu fengið á búinu en síðan var byrjað að gefa tilraunarfóðrið með og hlutur þess aukinn stöðugt þar til grísirnir fengu 100% tilraunarfóður. Eldistilraunin stóð yfir í 10 vikur en grísunum var slátrað við 104 kg þunga. Tilraunarhóparnir voru fjórir með sex grísum hver og fékk hver hópur eina tegund tilraunarfóðurs og hver grís sinn fóðurskammt (sjá 1. töflu). Allt fóður var vigtað í grísina og þeir vigtaðir vikulega á tilraunartímabilinu. Grísirnir voru fóðraðir tvisvar sinnum á dag og var daglegt fóðurmagn 2,0 FEs/grís við upphaf tilraunar og aukið í 2,8 FEs/grís/dag í síðustu viku tilraunar.

1. tafla. Uppsetning tilraunar.



Fjórar fóðurblöndur voru lagaðar með mismiklu innihaldi af fiskifitu (lýsi), eða jafngildi 3, 5, 7 og 9 gramma í hverju kílógrammi fóðurs. Magn fiskimjöls var 14,8% í öllum blöndum og með 1,8% fituinnihald í mjöli jafngildir það 3 g af fiskifitu í kg fóðurs í öllum fóðurblöndunum. Fiskimjölið var fitulítið eldþurrkað mjöl. Efnainnihald mjölsins í þurrefni var; fita 1,8%, prótein 73,6% og aska 27,5%. Þurrefni mjölsins var 91%. Til að auka heildarmagn fiskifitu í fóðurblöndunum var óhertu fóðurlýsi bætt í þrjár blöndur í stigvaxandi magni sem jafngilti 2, 4, 6 g lýsis / kg fóðurs. Með því fengust tilraunarblöndurnar fjórar með 3, 5, 7 og 9 g af fiskifitu í kílói. Fóðurblöndurnar voru á mjölformi en bleyttar upp fyrir fóðrun. Í 2. töflu má sjá samsetningu tilraunarfóðurblandnanna.

2. tafla. Samsetning tilraunarfóðurs (%).




Við slátrun voru skrokkar og hausar vegnir. Skrokkfita var mæld yfir hrygg og yfir bóg. Sýrustig í hryggvöðva og í innanlærisvöðva sláturskrokkanna var mælt 1 klst. og 24 klst. eftir slátrun. Skrokkarnir voru hlutaðir og úrbeinaðir og nýting mæld. Við úrbeiningu féllu til eftirfarandi vörur; snyrtar lundir, beinlausir hryggir, snyrtir hnakkar með beini, beikon og vinnsluefni S-I, S-II, S-III, S-V, SVII og S-VIII með áfastri puru (Guðjón Þorkelsson og Óli Þór Hilmarsson 1994). Þessar vörur voru vigtaðar og nýting, sem hlutfall af heilum skrokk, reiknuð út. Jafnframt var allur afskurður vigtaður, þ.e. bein, pura og blóðkjöt.

Kjötsneiðar úr hrygg voru teknar í skynmat svo og kjöt- og fitusýni til fitusýrumælinga. Sýni af vöðva og bakfitu voru tekin úr hverjum skrokk til fitusýrugreininga og var joðtala reiknuð út frá niðurstöðum fitusýrugreininga (Rósa Jónsdóttir 1997).

Til skynmats voru skornar tveggja sentimetra þykkar sneiðar, þvert á vöðvaþræðina. Hver sneið, sem fór strax í skynmat, var pökkuð í loftdregnar suðuumbúðir og geymd í kæli þar til skynmat fór fram. Önnur sýni voru pökkuð í heimilisplastpoka og geymd í 6 mánuði við -20°C til að meta áhrif fóðurfitunnar á geymsluþol kjötsins. Alls tóku 8 dómarar þátt í skynmatinu og fékk hver þeirra tvö kjötsýni af sama svíni. Dómararnir gáfu sýnunum eink-unnir á óstikaða kvarðanum 0-100 fyrir safa, meyrni, kjötbragð, súrt bragð, aukabragð að kjöti og aukabragð að fitu og var 0 lægsta einkunn og 100 hæsta einkunn.

Bragðgæði upphitaðs kjöts frá grísum sem fengu fóður með 5 og 9 g fiskifitu voru einnig metin. Eftir suðu voru kjötsneiðarnar teknar úr umbúðunum og geymdar í kæli í einn sólarhring. Þá voru sneiðarnar hitaðar upp á ný og skynmat framkvæmt. Dómararnir gáfu sýnunum einkunnir á stikaða kvarðanum 0-100 fyrir kjötbragð, súrt bragð, upphitunarbragð, lýsisbragð, pappabragð, þráabragð og plastbragð.

NIÐURSTÖÐUR
Í 3. töflu má sjá efnainnihald og orkumagn í fóðurblöndunum.

3. tafla. Efnainnihald í fóðurblöndum sem % í þurrefni (þe.) og orkumagn sem FEs/kg.



Með auknu magni af fiskifitu í fóðri jókst hlutfall þeirra fitusýra sem einkenna sjávarfang. Þar má nefna einómettaðar fitusýrur að keðjulengd C20 og C22, en sérstaklega fjölómettuðu sjávarfangsfitusýrurnar EPA (C 20:5n-3), DPA (C 22:5n-3) og DHA (C 22:6n-3). Á 1. mynd má sjá magn sjávarfangsfitusýra í fóðurblöndunum gefið upp sem g af fitusýrum í kg fóðurs. Samanlagt magn EPA, DPA og DHA jókst úr 1,31 g/kg fóðurs í fóðurblöndu með minnst af fiskifitu upp í 2,76 g/kg fóðurs í fóðurblöndu með mest af fiskifitu. Í Svíþjóð er ráðlagt að takmarka samanlagt magn DPA og DHA í svínafóðri við 0,015%. Ef hlutfall þeirra er hærra getur það haft neikvæð áhrif á afurðir svína (Lundström og Bonneau 1996). Hlutfall DPA og DHA í fóðurblöndum þessarar tilraunar var minnst 0,076%, sem er mun meira en ráðlagt er í Svíþjóð.

Fóðurmeðferð hafði hvorki áhrif á vaxtarhraða né fóðurnýtingu tilraunargrísanna. Með-alvaxtarhraði á 10 vikna tilraunartímabili var 887 g á dag, sem sýnir að blendingarnir vaxa mun betur en hreina íslenska kynið. Vaxtarhraði íslenska kynsins úr fyrri tilraunum liggur á bilinu 600 til 680 g á dag. Einnig verður að hafa í huga að sú breyting á umhverfi og fóðri grísanna við flutning í tilraun dregur alltaf eitthvað úr vaxtarhraða, sérstaklega við upphaf tilraunar. Þó er reynt að draga úr þeim áhrifum með aðlögun grísanna og í þessari tilraun fengu þeir hátt í þriggja vikna tíma til að aðlagast nýju umhverfi og fóðri. Meðalfóðurnýtingin á tilraunartímabilinu var 2,9 FEs á hvert kg vaxtarauka, sem þýðir að grísirnir hafa nýtt fóðrið vel.



1. mynd. Sjávarfangsfitusýrur (g/kg fóðurs) í fóðurblöndum.

Ekki hafði fóðurmeðferð marktæk áhrif á þyngd skrokka, hausa eða innyfla. Marktækur munur var á sýrustigi í hryggvöðva og innanlærisvöðva einni klukkustund eftir slátrun svo og í hryggvöðva 24 klst. eftir slátrun, en ekki var hægt að útskýra þennan mun út frá fóðuráhrifum. Fóðurmeðferð hafði engin áhrif á nýtingu skrokkanna. Meðalfallþyngd við slátrun var 71,3 kg. Til samanburðar var meðalfallþungi skrokka af íslenskum grísum í tilraun 1993 63,8 kg. Enginn munur var á fitumálum skrokkanna eftir fóðurtegund.

Fitusýrusamsetning fóðurs endurspeglaðist í fitusýrusamsetningu bakfitunnar (sjá 2. mynd) og vöðvafitunnar. Með auknu magni af fiskiolíu í fóðrinu jókst (P<0,001) hlutfall sjávarfangsfitusýranna EPA, DPA og DHAí bakfitu. Einnig var marktæk aukning á einómett-uðum fitusýrum af keðjulengd C20. Engar marktækar breytingar urðu á hlutfalli annarra fitusýra í bakfitunni. Er það andstætt því sem fengist hefur úr fyrri tilraunum framkvæmdum á RALA (Birna Baldursdóttir o.fl. 1998, Rósa Jónsdóttir 1997, Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson 1995). Í þeim tilraunum voru áhrif mismunandi fitugjafa rannsökuð, þ.e. herts lýsis, lambamörs og sojaolíu, að viðbættu fiskimjöli. Hafði íbætt fita, í 5% eða 10% magni í fóðri, greinileg áhrif á hlutfall allra fitusýra í bakfitu. Í þessu verkefni var mun minna af íbættri fitu og þá eingöngu fiskifitu, eða 0,2 til 0,7%, en áhrif sjávarfangsfitusýra voru þó greinileg.


2. mynd. Magn sjávarfangsfitusýra (% af heildarfitusýrusamsetningu) í bakfitu tilraunagrísa.

Enginn marktækur munur reyndist vera á fitusýrusamsetningu hópanna sem fengu 3 g og 5 g fiskifitu/kg fóðurs. Aftur á móti var munur á milli hópa sem fengu 5 g, 7 g og 9 g fiskifitu/kg fóðurs. Sérstaklega er áberandi munur á magni DPA milli hópa sem er athyglisvert, því magn DPA í fóðri var mun minna en magn EPA og DHA. Þannig er hugsanlega uppsöfnun og/eða myndun DPA í bakfitu mjög virk, en óljóst er hvernig á þessu stendur. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það sem sést hefur í fyrri svínaverkefnum á RALA (Birna Baldursdóttir o.fl. 1998, Rósa Jónsdóttir 1997, Birna Baldursdóttir og Guðjón Þorkelsson 1995) og er einnig í samræmi við niðurstöður ýmissa annarra (Hertzman o.fl. 1988, Morgan o.fl. 1992, Irie og Sakimoto 1992, Taugbøl 1993, Øverland o.fl. 1996).

Aukabragð eða fiskibragð hefur verið tengt of háu hlutfalli EPA, DPA og DHA í bakfitu. Samanlagt hlutfall DPA og DHA hefur verið notað til að meta hættu á þránun. Í Svíþjóð og Finnlandi hafa verið settar þær kröfur að hlutfall þetta fari ekki yfir 0,5%. Eftir viðamikla rannsókn í Noregi, þar sem gæði svínakjöts á markaðnum voru könnuð, var mælt með að nota sömu viðmiðunargildi og í Svíþjóð og Finnlandi (Arnkværn og Bronken Lien 1997). Hérlendis hefur einnig verið mælt með viðmiðunargildinu 0,5% (±0,1%) til að draga úr hættu á auka- eða fiskibragði af völdum þránunar. Eins og sjá má á 2. mynd þá fór hlutfall DPA og DHA vel yfir viðmiðunargildi í öllum hópum.

Joðtala hefur mikið verið notuð hér á landi sem erlendis við gæðamat á svínafitu. Joðtala er mælikvarði á fjölda tvíbindinga í fitu og er skilgreind sem magn af joði (í g) sem hvarfast við 100 g af fitu. Því fleiri tvíbindingar þeim mun hærri er joðtalan. Hún er bæði mælikvarði á þéttleika fitunnar og tilhneigingu hennar til að þrána. Æskilegt er að joðtala í fituvef sé lægri en 65 og hún má ekki vera hærri en 70 (DS 1992). Ef joðtalan fer yfir 70 er hætt við að fitan verði of lin og að hún þráni (Østerballe o.fl. 1990). Í þessari tilraun var joðtalan ekki mæld heldur reiknuð út frá fitusýrusamsetningu. Samanburður á mældri og reiknaðri joðtölu var gerður í tveimur fyrri svínaverkefnum á RALA (Birna Baldursdóttir o.fl. 1998, Rósa Jónsdóttir 1997) og bar þeim vel saman, nema þegar hert lýsi var notað í fóður. Því var ákveðið að nota hér reiknaða joðtölu. Niðurstöðurnar voru þær að joðtala fyrir hópana, sem fóðraðir voru með 3 g, 5 g, 7 g og 9 g fiskifitu/kg fóðurs, var 63, 64, 64 og 67 í sömu röð. Ekki var um marktækan mun á milli hópa að ræða. Hins vegar þegar skoðað var framlag sjávarfangsfitusýranna EPA, DPA og DHA til joðtölunnar þá lögðu þær marktækt meira (P<0,001) til joðtölunnar í þeim hópi sem fóðraður var á 9 g fiskifitu/kg fóðurs. Hlutur langra fjölómettaðra fitusýra getur því verið tiltölulega hár og því veruleg hætta á þránun, þó svo að joðtalan sé innan ráðlagðra marka og þéttleiki fitunnar í lagi.

Lagt hefur verið til að hlutfall fjölómettaðra fitusýra í svínafitu ætti að vera undir 12,5% ef joðtala á að vera undir 65. Fjölómettaðar fitusýrur ættu alls ekki að fara yfir 15,8% ef forðast á lina hryggjarfitu. Þetta mark samsvarar joðtölu 70. Hlutfall fjölómettaðra fitusýra reyndist vera í hærra lagi og marktækt mest í þeim hópi sem fóðraður var á 9 g fiskifitu/kg fóðurs (13%).

Fitusýrusamsetning fóðurs endurspeglaðist einnig í fitusýrusamsetningu vöðva grís-anna. EPA var í marktækt meira (P<0,001) magni í vöðvavef þeirra grísa sem fóðraðir voru á 9 g fiskifitu/kg fóðurs miðað við hina hópana. Einnig var marktækur munur (P<0,01) á magni DHA þar sem fóðrað var með 7 g eða 9 g fiskifitu/kg fóðurs borið saman við hina hópana sem fóðraðir voru með minni fiskifitu. Ekki var hægt að sjá eins áberandi magnbundna aukningu á DPA í vöðvafitu eins og sást í bakfitunni. Þó var marktækur munur á þeim hópum sem fengu minnst og mest af fiskifitu. Engar marktækar breytingar urðu á magni annarra fitusýra í vöðvafitu. Øverland o.fl. (1996) greindu magnbundna aukningu á EPA, DPA og DHA í vöðva svína sem fóðruð voru á 0, 1 og 3% lýsi.

Í 4. töflu eru sýnd áhrif fóðursins á skynmatseiginleika ferskra kótilettna og á eiginleika kótilettna eftir 6 mánaða frostgeymslu. Niðurstöðurnar sýna að ferskt kjöt var safaríkt, meyrt og hafði mikið kjötbragð. Fóður með 5, 7 eða 9 g fiskifitu í kg hafði hvorki neikvæð áhrif á gæði fersks kjöts né fitu borið saman við hópinn sem fóðraður var með 3 g af fiskifitu í kg fóðurs. Aukabragð og lykt af kjöti og fitu greindist þó í öllum hópum. Eftir 6 mánaða frostgeymslu hafði aukabragð og aukalykt af kjöti aukist í öllum hópum. Það sama gerðist með fitu og var marktækt meira aukabragð og aukalykt í hópunum sem fengu 7 g og 9 g fiskifitu í kg fóðurs. Þráabragð og þráalykt af fitu var einnig marktækt meiri í hópi sem fékk 9 g fiskifitu/kg fóðurs borið saman við hópinn sem fékk 3 g fiskifitu/kg.

4. tafla. Skynmat á ferskum kótilettum og á kótilettum eftir 6 mánaða geymslu í frosti (skyggðar línur).



Úrval tilbúinna rétta úr kjöti skipar sífellt hærri sess í lífi nútímamannsins. Tilbúnir réttir eru þægilegir og fljótlegir og einungis þarf að hita þá upp rétt fyrir neyslu því oftast er búið að forsjóða þá. Aukabragð að forsoðnu kjöti, frosnu hökkuðu kjöti og unnum kjötvörum af völdum þránunar er vel þekkt vandamál, m.a. vegna myndunar sk. upphitunarbragðefna. Samkvæmt niðurstöðum skynmats á upphituðu kjöti þá var marktækt (P<0,05) meira lýsisbragð og þráabragð að kjöti úr hópnum sem fékk meira af fiskifitu (9 g/kg). Athyglisvert er hve lítið kjötbragð var af sýnunum miðað við fersk sýni og sýni eftir 6 mánaða frostgeymslu. Hins vegar var mikið upphitunarbragð af sýnunum.

Sýnt hefur verið að myndefni þránunar langra fjölómettaðra n-3 fitusýra valda dæmigerðu fiskibragði og lykt (Karahadian og Lindsay 1989). Þessar niðurstöður benda til þess að aukið magn fiskifitu í fóðri auki líkurnar á lýsis- og þráabragði upphitaðs kjöts. Líklegt er að áhrifanna gæti einnig í unnum kjötvörum.

Fita og vinnsluefni úr þessari tilraun var notað til vinnslu á spægipylsu. Vinnsluefni, sem notað er í unnar kjötvörur, skiptist í átta flokka, þ.e. SI til SVIII, með fituinnihaldi frá 2 til 85% (Guðjón Þorkelsson og Óli Þór Hilmarsson 1994). Vinnsluefni með 30-50% fitu er oft notað í hrápylsugerð. Gerð var geymsluþolstilraun á niðursneiddri spægipylsu sem pökkuð var annars vegar í lofttæmdar umbúðir og hins vegar í loftskiptar umbúðir. Fyrstu niðurstöður sýna að eftir 6 daga geymslu í kæli og í ljósi var komið þráa- og lýsisbragð að pylsum úr grísum fóðruðum með 3 g fiskifitu og einnig að pylsum frá grísum fóðruðum með 9 g fiskifitu. Enginn marktækur munur var á hópunum hvað varðaði þráa- og lýsisbragð. Aftur á móti reyndist þráa- og lýsisbragðið vera marktækt minna ef spægipylsan var geymd í myrkri. Með lengri kæligeymslu (allt að 6 vikum) í myrkri jókst þráa- og lýsisbragð að spægipylsunum, sérstaklega í hópunum þar sem fóðrað var með 7 g og 9 g fiskifitu/kg fóðurs. Samanlagt hlutfall DPA og DHA og einnig samanlagt hlutfall EPA, DPA og DHA var marktækt hærra í þessum hópum samanborið við hópa sem fengu 3 g og 5 g fiskifitu/kg fóðurs. Einnig kom fram munur á pökkunaraðferðum, því meira þráa- og lýsisbragð reyndist vera að spægipylsum sem pakkaðar voru í loftskiptar umbúðir (Rósa Jónsdóttir o.fl., óbirtar niðurstöður 1998).

ÁLYKTANIR
Niðurstöðurnar sýna að það magn fiskifitu sem prófað var hafði hvorki áhrif á vaxtarhraða né fóðurnýtingu tilraunargrísanna. Sama gildir um skrokkþunga, fitumál og nýtingu skrokkanna, þar var enginn mælanlegur munur, sem er mjög eðlilegt miðað við jafna fóðurnýtingu og vöxt.

Með auknu magni af fiskifitu í fóðri jókst magn sjávarfangsfitusýranna EPA, DPA og DHA bæði í bakfitu og í vöðvafitu. Samanlagt hlutfall DPA og DHA í bakfitu fór vel yfir viðmiðunargildi (0,5%) í öllum tilraunahópum, en með auknu magni þessara fitusýra eykst hættan á þránun og aukabragði.

Ekki var marktækur munur á reiknaðri joðtölu í bakfitu tilraunagrísanna, en hún reyndist vera á bilinu 63 til 67. Framlag sjávarfangsfitusýranna til joðtölunnar var hins vegar marktækt mest í þeim hópi sem fékk mest af fiskifitu. Hlutur langra fjölómettaðra fitusýra getur því verið tiltölulega hár og því veruleg hætta á þránun, þó svo að joðtalan sé innan ráðlagðra marka og þéttleiki fitunnar í lagi.

Stigvaxandi fiskifita í fóðri (3-9 g/kg fóðurs) hafði hvorki neikvæð áhrif á gæði fersks kjöts né fitu. Aukabragð og lykt af kjöti og fitu greindist þó í öllum hópum. Eftir 6 mánaða frostgeymslu hafði aukabragð og aukalykt af kjöti aukist í öllum hópum, en ekki var um marktækan mun á milli hópa að ræða. Hins vegar jókst aukabragð og aukalykt af fitu marktækt eftir 6 mánaða frostgeymslu. Var marktækt meira aukabragð/-lykt af fitu frá grísum sem fengu 7 og 9 g af fiskifitu samanborið við fitu frá grísum sem fengu fóður með 3 g af fiskifitu í kg. Það sama má segja um þráabragð og þráalykt af fitu eftir 6 mánaða frostgeymslu, marktækt meiri þránun var í fitu grísa sem fengu fóður með mestri fiskifitu.

Aukin fiskifita í fóðri hafði neikvæð áhrif á bragðgæði upphitaðs kjöts. Var marktækt meira lýsisbragð og þráabragð af kjöti úr þeim hópi sem fékk mest af fiskifitu borið saman við þann hóp sem fékk 5 g fiskifitu/kg fóðurs.

Fyrstu niðurstöður geymsluþolstilraunar á spægipylsu, unninni úr afurðum tilraunargrísanna, sýna að eftir 6 daga geymslu í kæli og í ljósi var komið þráa- og lýsisbragð að pylsum úr grísum fóðruðum með 9 g fiskifitu, en einnig að pylsum frá grísum fóðruðum með aðeins 3 g fiskifitu.

Niðurstöður þessarar tilraunar gefa til kynna að í lagi sé að nota allt að 9 g af fiskifitu í kg fóðurs ef afurðir eru nýttar ferskar og ekki frystar eða notaðar í hrápylsuframleiðslu. Þetta er hins vegar ekki raunhæft í dag, þar sem nánast ógerlegt er að aðgreina hráefni sem fer í vinnslu frá því sem fer á ferskan markað. Því er ráðlagt út frá niðurstöðunum og með tilliti til niðurstaðna fyrri tilraunar, þar sem einn hópur grísa fékk 2 g af fiskifitu, að takmarka magn fiskifitu í kg eldisfóðurs við hámark 2 g/kg. Þetta jafngildir því að ef um er að ræða 2% feitt fiskimjöl þá má ekki nota meira en 10% af því í fóður eldisgrísa. Hins vegar er mjög þarft að kanna hvort það að hætta allri fiskimjölsnotkun einhverjum vikum fyrir slátrun geti komið í veg fyrir þessi óæskilegu áhrif sjávarfangsfitusýranna í vinnsluferlum afurða. Einnig er mjög áhugavert að kanna hvort náttúruleg þráavarnarefni í eldisgrísafóðri geti dregið úr neikvæðum áhrifum fitusýra úr fiskimjöli á gæði afurða.

HEIMILDIR

Arnkværn, E. & C. Bronken Lien, 1997. Måling/overvåking av kvalitet på svinekjøtt. Norsk Kjøtt Fagsenter, rapport.

Birna Baldursdóttir & Guðjón Þorkelsson, 1995. Áhrif fiskimjöls og fitu á gæði svínakjöts. Fjölrit RALA nr. 177, 30 s.

Birna Baldursdóttir, Guðjón Þorkelsson, Þyrí Valdimarsdóttir & Rósa Jónsdóttir, 1998. Fita í fóðri eldissvína. Fjölrit RALA nr. 195, 31 s.

DS (Danske Slagterier), 1992. Driftsledelse i svineholdet. Kap. 1; Foder.

Guðjón Þorkelsson & Óli Þór Hilmarsson, 1994. Íslenska kjötbókin. Handbók fyrir kjötkaupendur. Upplýsingaþjónusta landbúnaðarins. ISBN 9979-60-074-8, 85 s.

Hertzman, C., L. Göransson & H. Rudérus, 1988. Influence of fishmeal, rape-seed, and rape-seed meal in feed on the fatty acid composition and storage stability of porcine body fat. Meat Sci. 23(1): 37-53.

Irie, M. & M. Sakimoto, 1992. Fat characteristics of pigs fed fish oil containing eicosapentaenoic and docosa-hexaenoic acids. J. Anim. Sci. 70: 470-477.

Karahadian, C. & R.C. Lindsay, 1989. Flavor Chemistry: trends and developments, 60-75. American Chemical Society.

Lundström, K. & M. Bonneau, 1996. Off-flavour in meat with particular emphasis on boar taint. Í: Meat Quality and Meat Packaging (ritstj. S.A. Taylor, A. Raimundo, M. Sverini & F.J.M. Smulders). ECCEAMST III.

Miller, M.F., S.D. Shakelford, K.D. Hayden & J.O. Reagan, 1990. Determination of the alteration in fatty acid profiles, sensory characteristics and carcass traits of swine fed elevated levels of monounsaturated fats in the diet. J. Anim. Sci. 68(6): 1624-1631.

Morgan, C.A., R.C. Noble, M. Cocchi & R. McCartney, 1992. Manipulation of the fatty acid composition of pig meat lipids by dietary means. J. Sci. Food Agric. 58, 357-368.

Rósa Jónsdóttir, 1997. Áhrif fóðurfitu á svínakjöt, skoðuð með fitusýrugreiningum, skynmati og fjölbreytutölfræði. M.S. ritgerð í matvælafræði. Fjölrit Rala nr. 188, 72 s.

Rósa Jónsdóttir, Þyrí Valdimarsdóttir, Ólafur Unnarsson & Óli Þór Hilmarsson, 1998. Áhrif sjávarfangsfitusýra í svínafitu og vinnsluefni á gæði og geymsluþol spægipylsa. Óbirtar niðurstöður.

Stryer, L., 1981. Biochemistry. 2. útg. W.H. Freeman & Company, New York, 949 s.

Taugbøl, O., 1993. Studies on w3 polyunsaturated fatty acids as a supplement to pig nutrition. Ph.D. thesis, Norwegian College of Veterinary Medicine, Osló.

Østerballe, R., A. Madsen, H.P. Mortensen, C. Bejerholm & P. Barton, 1990. Foderets indflydelse på råvare-kvaliteten hos slagtesvin. 2. Linolsyre/linolen-syre og solsikkefrø. 685. beretning. Statens Husdyrsbrugsforsøg, Foulum, Danmark, 58 s.

Øverland, M., O. Taugbøl, A. Haug & E. Sundstøl, 1996. Effect of fish oil on growth performance carcass characteristics, sensory parameters, and fatty acid composition in pigs. Acta Agric. Scand. Sect. A, Animal Sci. 46: 11-17.