Heimilisgarðrækt

HöfundurÚtgefandiÚtgáfuárÚtgáfustaður
Magnús Óskarsson1997Reykjavík
RitÁrgangurTölublaðBls.
Handbók bænda4768-78

Aðstæður fólks í sveitum til að stunda garðrækt er mismunandi. Þar koma til atriði eins og hvar á landinu fólk býr, hvort aðstæður eru til að geyma matjurtirnar og hvort vinnuafl er tiltækt vor og haust. Húsfreyjurnar, sem yfirleitt bera ábyrgð á matarræði heimilisfólks, eru oft mjög áhugasamar um að geta á heimili sínu, borið á borð nýjar, hollar og venjulega ódýrar matjurtir úr eigin garði.

Þær samanþjöppuðu leiðbeiningar, sem hér birtast, eru ætlaðar til þess að eigendur heimilisgarða, geti gripið til þeirra í önn dagsins. Flestar ábendingar um afbrigði og stofna, sem fram koma, eru teknar úr Nytjaplöntur á Íslandi 1997 í ritstjórn Áslaugar Helgadóttur.

Kartöflur.
Neysla og matargæði: Líkleg neysla fullorðins fólks af kartöflum er 5 kg á mánuði. Í 100 g af kartöflum eru um 70 hitaeiningar. Í vel þroskuðum kartöflum er 20-24 % þurrefni. Kartöflur eru auðugar af C-, B1- og B6- vítamínum.
Jarðvegur: Flestar jarðvegstegundir eru nothæfar fyrir kartöflurækt, en þær hafa mismunandi eiginleika. Sandjarðvegur hlýnar snemma á vorin, en hann heldur illa vatni og hættir til að fjúka. Mýrarjarðvegur þarf að vera vel framræstur. Mýrar- móa- og moldarjarðvegur er kaldur á vorin. Sýrustigið er mælt í pH-einingum. Það er æskilegt að pH í kartöflugörðum sé um 5,5. Ef jarðvegurinn basískari, þ.e. pH talan er há, þá er hætta á að kartöflurnar spillist af kláðasjúkdómum.
Viðurkennd afbrigði: Bintje, Gullauga, Helga (Rautt Gullauga), Premiere og rauðar íslenskar.
Útsæðiskartöflur: Hæfileg þyngd á kartöflu 40-60 g.
Spírun: Góðar spírur fást með því að hafa kartöflurnar í grunnum kössum í 4-6 vikur við 10-15°C hita.
Útsæðisþörf: 22-27 kg á 100 m2.
Áburðarþörf: 7-10 kg Græðir 1 á 100 m2 eða 8-11 kg Blákorn eða Græðir 1 a. Ef aðeins er notaður búfjáráburður: Um 400 kg kúamykja eða 250 kg sauðatað eða 350 kg hrossatað á 100 m2. Ef kartöflugrasið er hátt og dökkgrænt, hefur verið borið á of mikið af köfnunarefni. Næsta ár verður því að minnka áburðarskammtinn.
Vaxtarrými: Ef 60 cm eru milli raða, er rétt að hafa 25-35 cm milli kartaflna i röð.
Sáðdýpt niður á kartöflurnar: Í moldarjarðvegi 4-5 cm og sandjarðvegi 6-8 cm.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja glært plast eða trefjadúk yfir kartöflubeðin, en fjarlægja gróðurhlífarnar þegar grösin eru komin vel upp. Svart plast er vörn við illgresi.
Upptaka: Rétt er að reyna eins og kostur er að láta ekki hýðið skaddast við upptöku, því að í gegnum sárið opnast smitleið fyrir meinvalda. Best er að taka upp í þurru og hlýju veðri.
Geymsla: Æskilegast er að geyma kartöflur við 15°C hita og 95% raka í um 2 vikur eftir upptöku og hafa síðan í 4-8°C hita og 95% raka f kartöflugeymslunni.
Sjúkdómar: Það eru margir sjúkdómar og aðrir meinvaldar, sem skemma kartöflur. Þess vegna er nauðsynlegt nota heilbrigt útsæði og æskilegt að rækta kartöflurnar ekki á sama stað í mörg ár.

Gulrætur.

Matargæði: Hitaeiningar í 100 g af gulrótum eru um 40. Í gulrótunum er mikið af A- vítamíni og trefjum.
Jarðvegur: Efstu 30-40 cm þurfa að vera lausir í sér fyrir gulræturnar. Bestur er sandblandaður jarðvegur, sem ekki er grýttur. Ef steinar eða kögglar eru í jarðveginum er hætta á að gulræturnar klofni. Sýrustigið er mælt í pH-einingum. Æskilegt er að pH sé um 5,5- 6. Það getur því þurft að kalka suma garða, t.d með 3 kg af skeljakalki á 10 m2.
Viðurkenndir stofnar:
Mjög fljótvaxinn stofn: Nantes Napoli.
Fljótvaxnir stofnar. Nantes Nanthya, Amsterdam Mokum og Alamo. Í meðallagi fljótvaxin: Nantes Nelson og Nantes Tamino. Seinvaxnir stofnar: Fancy og Nantes Navarre.
Til ræktunar í gróðurhúsum: Amsterdam Minicor.
Gulrætur af Amsterdam-gerð eru að öðru jöfnu mjórri en gulrætur af Nantes-gerð.
Áburðarþörf: Um 1 kg af Blákorn á 10 m2. Ef aðeins á að nota búfjáráburð: Um 40 kg kúamykja eða 25 kg sauðatað eða 35 kg hrossatað á 10 m2.
Vaxtartími: Gulrætur þurfa langan vaxtartíma, þess vegna er nauðsynlegt að sá eins snemma og veðurfar og ástand jarðvegs leyfir. Sáning: Helst á ekki að sá meiru en 2-2,5 g á 10 m2. Á milli raða má vera 20-25 cm.
Grisjun: Nauðsynlegt er að grisja gulrætur. Hæfilegt bil á milli gulróta er 3-6 cm. Yfirleitt er grisjað með höndum. Það er best að gera þegar fyrstu laufblöðin sjást.
Gróðurhlífar: Æskilegt er að leggja trefjadúk eða glært plast yfir beðin. Það verður að taka plastið af þegar blöðin vaxa upp í hann, en trefjadúkurinn má vera yfir gulrótunum mestan hluta sumars. Ræktun gulróta í óupphituðu plastgróðurhúsi heppnast venjulega vel.
Upptaka: Gulrætur þola illa frost og verður að miða upptökutíma við það.
Geymsla: Bestu aðstæður eru 0°C hiti og 95-100% raki. Gulrætur eru oft geymdar í rimlakössum, sem klæddir er að innan með götuðu plasti. Einnig má geyma þær í rökum sandi.
Frysting: Ef frysta á gulrætur, þarf að þvo þær og skafa og hafa þær síðan í sjóðandi heittu vatni í 3 mínútur. Síðan eru þær kældar, settar í plastpoka og komið fyrir í frystikistu.


Rabarbari.

Matargæði: Í 100 g af rabarbara er um 25 hitaeiningar. Það er ókostur að í honum eru töluvert af oxalsýru, sem dregur úr nýtingu kalks í fæðunni. Með mat úr rabarbara, þarf því að einnig að vera mikið kalk í fæðunni, sem t.d. er í mjólkurmat.
Vinsælir stofnar: Viktoría, stönglarnir grænir og rauðir. Vínrabarbari, stönglarnir rauðir að utan og innan.
Skipting á rabarbarahnausum: Rabarbarahnausarnir stækka með árunum. Það er æskilegt að skipta þeim á nokkurra ára fresti og flytja þá til. Við skiptingu þurfa að vera minnst 3 brum á hverjum hnaus. Það er best að flytja rabarbarann á haustin.
Áburður: Rétt er að setja mikið af búfjáráburði í gróðursetningaholurnar, þegar rabarbarahnausarnir eru gróðursettir. Æskilegt er að setja búfjáráburð yfir rabarbarahnausanna á haustin, það skýlir plöntunum yfir veturinn og er jafnframt næring fyrir plönturnar.
Vaxtarrými: Hæfilegt er að hafa 1 m milli plantna af Viktoríu rabarbara en 0,75 m milli plantna af Vínarrabarbara.
Uppskera: Fyrsta sumarið eftir skiptingu verður að gæta þess, að taka ekki of mikið af leggjum rabarbarans.

Jarðarber .
Matargæði: Í 100 g af jarðarberjum eru um 30 hitaeiningar og þau eru auðug af C-vítamíni.
Jarðvegur: Best er að rækta er jarðarber í gljúpum moldarjarðvegi, en þau eru samt ekki vandfýsin á jarðveg. Framræsla þarf þó að vera góð, en samt þarf jarðvegurinn að hald vel vatni.
Viðurkenndir stofnar:
Til ræktunar undir gróðurhlífum án upphitunar. Glima, Jonsok og Zephyr.
Til ræktunar í heitum gróðurhúsum: Elsanta og Senga-Sengana.
Áburðarþörf: Varast ber að nota mikinn áburð, því að hann eykur blaðvöxtinn en ekki berjauppskeru. Þegar plönturnar eru gróðursettar má nota 15-20 kg af sauðataði á 10 m2, eða heldur meira af hrossataði og 300 g af þrífosfati. Þegar um frjóan jarðveg er að ræða, er venjulega ekki ástæða til að bera áburð á árlega. Ef litur á blöðum fer að verða Ijós, er rétt að bera um 25 g af Blákorni á plöntu.
Fjölgun jarðarberjaplantna: Fjölgunin fer fram á þann hátt að smáplönturnar, sem myndast á renglunum, eru teknar og aldar upp í eitt sumar. Næsta ár eru þær gróðursettar á þann stað, sem þær eiga að vera næstu 4-5 árin.
Vaxtarrými: Ef gróðursett er í beð er algengt er að hafa 70-90 cm milli raða og 50-60 cm milli plantna í röð. Ef ræktað er í óupphituðu plastgróðurhúsi eða heitu gróðurhúsi eru plönturnar oft hafðar í pottum eða plastpokum.
Gróðursetning: Þegar jarðarberin eru ræktuð í beðum, eru plönturnar venjulega gróðursettar í gegnum svart plast. Það er gert til að illgresi vaxi ekki í beðinu, berin óhreinkist ekki og plönturnar á jarðrenglunum rótfestist ekki. Plönturnar verður að gróðursetja í sömu dýpt og þær stóðu áður.
Gróðurhlífar: Það er auðvelt að rækta jarðarberin í óupphituðum plastgróðurhúsum, en það er einnig unnt að nota lítil plastbúr eða trefjadúk. Þar sem veðursæld er mest á landinu er unnt að rækta berin án gróiðurlífa.
Hirðing: Hirðing er aðallega fólgin í því að fjarlægja renglur og reyta illgresi. Venjulega eru blómin slitin af plöntunum árið sem þær eru gróðursettar. Þetta er gert til að plönturnar leggi frekar orku í að byggja upp gott rótarkerfi en að mynda ber.
Frjóvgun: Þó að blómin séu tvíkynja er mikilvægt að frjó berist frá fræfli á frævu fyrir tilverknað flugna. Á Íslandi er lítið um flugur sem gera þetta, svo að það er vissara að handfrjóvga blómin, t.d. með því að bera frjóið á milli blóma með bómullarhnoðra.
Vökvun: Þegar jarðaberjaplönturnar eru að mynda ber þurfa þær mikið vatn, þá getur verið nauðsynlegt að vökva.
Upptaka: Það á að tína berin um leið og þau þroskast, þ.e. rétt áður en þau verða dökkrauð.
Meinvaldar: Þrestir sækja mikið í jarðarber. Þess vegna er nauðsynlegt að verja plönturnar með neti. Unnt er að verjast sniglum með sniglaeitri eða að strá byggingarkalki í kringum jarðarberjabeðið. Varast ber að láta kalkið koma of nærri plöntunum. Grámygla og aðrir myglusjúkdómar eyðileggja jarðarber iðulega. Þá er nauðsynlegt að úða blómin einu sinni til þrisvar með mygluvarnarefninu Euparen.

Matjurtir af krossblómaætt (Gulrófur og kál).
Jarðvegur: Flestar jarðvegstegundir eru nothæfar til að rækta í þeim jurtir af krossblómaætt, en þær hafa mismunandi eiginleika eins og getið er um í umfjöllun um kartöflur, hér að framan. Algengt er að jarðvegur sé of súr fyrir jurtir af krossblómaætt. Sýrustigið er mælt í pH-einingum. Það er æskilegt að pH sé um 6 fyrir þessar jurtir. Ef jarðvegurinn er súr, pH t.d. 5, verður að kalka. Oft er notað 3-5 kg af skeljakalki á 10 m2.
Kálflugan, eða afkvæmi hennar kálmaðkurinn, er versti meinvaldurinn sem við er að kljást þegar jurtir af krossblómaætt eru ræktaðar. Flugan verpir í flestum árum frá 15. júní til júlíloka. Maðkarnir skríða úr egginu um 1 viku eftir varp. Nauðsynlegt er að nota plöntuvarnarefni, t.d. Basudin 25, strax og flugan byrjar að verpa.

Gulrófur.

Matargæði: Hitaeiningar í 100 g af rófum eru um 30. Í vel þroskuðum gulrófum er 11-13 % þurrefni. Rófur eru mjög auðugar af C- vítamíni.
Viðurkenndir stofnar: Kálfafellsrófur (Sandvíkur-rófur), Vige og Gulláker.
Áburðarþörf: 0,8-1,1 kg Blákorn á 10 m2. Í Blákorni er bór, sem er nauðsynlegur fyrir gulrófur. Ef aðeins er notaður búfjáráburður: Um 40 kg kúamykja eða 25 kg sauðatað eða 35 kg hrossatað á 10 m2.
Ræktunaraðferðir: Gulrófnafræi er ýmist sáð beint út í garð eða rófurnar eru aldar upp í pottum í gróðurhúsum eða gróðurreitum.
Fræi sáð beint út: Helst á ekki að sá meiru en 1,5-2 g á 10 m2.
Grisjun: Það er nauðsynlegt að grisja rófur, sem sáð hefur verið til. Best er að grisja þegar komin eru 3-4 blöð á plöntuna, fyrir utan kímblöð.
Uppeldi í pottum: Við góð uppeldisskilyrði, 10-15°C hita og nóga birtu, tekur uppeldið 4-6 vikur.
Vaxtarrými: Ef 60 cm eru milli raða er rétt að hafa 25-30 cm milli rófna í röð.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja trefjadúk yfir beðin og taka hann af þegar dúkurinn virðist liggja of þungt á plöntunum í rigningu.
Upptaka: Gulrófur þola allt að -7°C frost, en það verður að taka þær upp í þýðu.
Geymsla: Bestu aðstæður eru 0°C hiti og 90-95% raki.

Höfuðkál (hvítkál, toppkál, rauðkál og blöðrukál).

Matargæði: Hitaeiningar í 100 g af káli eru um 30. Kálið er auðugt af A- og C-vítamínum. Í því er einnig mikið af ýmsum steinefnum, t.d. járni og kalki.
Viðurkenndir stofnar: Fljótvaxið hvítkál: Delphi, Parel og Procura.
Í meðallagi fljótvaxið hvítkál: Musketeer og Tucana.
Seinvaxið hvítkál, sem geymist vel: Balbro, Castello, Freshma og Grenadier.
Toppkál: Eerstling og Hispi
Rauðkál: Farao, Intro, Sint Pancras, Primero og Rodeo. Blöðrukál: Promasa og Wallasa.
Vaxtarhraði frá gróðursetningu: Toppkál og fljótvaxið hvítkál þarf 60-75 vaxtardaga, í meðallagi fljótvaxið hvítkál 75-90 daga og seinvaxið hvítkál, rauðkál og blöðrukál 90-105 daga.
Uppeldi: Við góð skilyrði tekur uppeldi í gróðurhúsi eða gróðrarreit 6-8 vikur fyrir hvítkál og toppkál, en 8-9 vikur fyrir rauðkál og blöðrukál. Æskilegt hitastig er um 15°C í skýjuðu veðri en 18-23°C í sól.
Áburðarþörf: 1,5 kg Blákorn á 10 m2. Í Blákorni er bór, sem er nauðsynlegur fyrir kál. Ef aðeins er notaður búfjáráburður: Um 65 kg kúamykja eða 40 kg sauðatað eða 50 kg hrossatað á 10 m2.
Vaxtarrými: Hæfilegt bil milli raða í beði 60 cm og 40-50 cm milli kálplantna í röð.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja trefjadúk yfir beðin og taka hann af þegar dúkurinn virðist liggja of þungt á plöntunum í rigningu.
Upptaka: Hvítkál þolir allt að -10°C frost, en það verður að taka kálið upp í þýðu. Kálið er hæft til upptöku þegar höfuðin eru orðin stinn og fara að lýsast. Þá byrja hlífðarblöðin að snúa upp á sig.
Geymsla: Fljótvaxin afbrigði geymast varla nema í 2-3 vikur, en seinvaxin geymast lengur. Bestu geymsluaðstæður eru 0°C hiti og 90-95% raki.

Blómkál.

Matargæði: Hitaeiningar í 100 g af káli eru um 25. Kálið er trefjasnautt.
Viðurkenndir stofnar: Fljótvaxið blómkál: Fastman Lintop
Í meðallagi fljótvaxið: Goodman, Linford, Montano og Plana Seinvaxið: Fargo og white
Summer, Amsterdam og White Ball.
Vaxtarhraði frá gróðursetningu: Fljótvaxið blómkál 50-75 dagar, í meðallagi fljótvaxið blómkál 75-90 dagar og seinvaxið blómkál 90-105 dagar.
Uppeldi: Við góð skilyrði tekur uppeldi í gróðurhúsi eða gróðrarreit 4-5 vikur. Plönturnar mega ekki vera stórar þegar þeim er plantað út, því þá er hætta á að það myndist örverpishöfuð. Við uppeldi er hæfilegt hitastig um 15°C. Það er æskilegt að hitinn sé heldur meiri dagana áður en farið er að herða plönturnar.
Áburðarþörf: 1 ,5 kg Blákorn á 10 m2. Í Blákorni er bór, sem er nauðsynlegur fyrir kál. Ef aðeins er notaður búfjáráburður: Um 65 kg kúamykja eða 40 kg sauðatað eða 50 kg hrossatað á 10 m2. Blómkál er viðkvæmt fyrir molybdenskorti. Þess vegna er æskilegt að úða plönturnar með upplausn af ammoníum molybdati, áður en plantað er út. Efnið fæst m.a. í apótekum. Hæfilegt er að leysa 2 g af ammoníum molybdati upp í 10 I af vatni. Upplausninni á að úða á 25 plöntur.
Vaxtarrými: Hæfilegt bil milli raða í beði 50-60 cm og 35-45 cm milli kálplantna í röð.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja trefjadúk yfir beðin og taka hann af þegar dúkurinn virðist liggja of þungt á plöntunum í rigningu.
Umhirða: Þegar kálhöfuðin fara að sjást á milli blaðanna er æskilegt að skýla þeim með því að brjóta blaðstilkinn á einu eða tveimur innstu blöðunum, þannig að þau leggist yfir höfuðið og skýli því fyrir sól og regni.
Upptaka: Hæfilegur uppskerutími er þegar kálhöfuðin eru um það bil að gisna í útjöðrunum.
Geymsla: Fljótvaxin afbrigði geymast stutt, en þau seinvöxnu lengur. Bestu geymsluaðstæður eru 0-1°C hiti og 90-95% raki.

Spergilkál.

Matargæði: Hitaeiningar í 100 g af káli eru um 35. Í kálinu er töluvert af A, B2, B6 og C vítamínum.
Viðurkenndir stofnar: Fljótvaxið spergilkál, sem myndar marga litla spergla: Clipper
Fljótvaxið, sem myndar fáa en stóra spergla: Corvet og Neptune
Seinvaxið, sem myndar fáa en stóra spergla: Shogun og Skiff
Uppeldi: Við góð skilyrði tekur uppeldi í gróðurhúsi eða gróðrarreit 4-5 vikur. Æskilegt hitastig um 15°C og heldur heitar áður en farið er að herða plönturnar.
Áburðarþörf: 1 ,5 kg Blákorn á 1 0 m2. Í Blákorni er bór, sem er nauðsynlegur fyrir kál. Ef aðeins er notaður búfjáráburður: Um 65 kg kúamykja eða 40 kg sauðatað eða 50 kg hrossatað á 10 m2.
Vaxtarrými: Hæfilegt bil milli raða í beði 50-60 cm og 40-45 cm milli kálplantna í röð.
Vaxtarhraði frá gróðursetningu: Eftir 90 vaxtardaga er líklegt að búið sé að uppskera 15-85% af heildar uppskerunni, háð veðurfari og stofnum.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja trefjadúk yfir beðin og taka hann af þegar dúkurinn virðist liggja of þungt á plöntunum í rigningu.
Upptaka: Hæfilegur uppskerutími er þegar sperglarnir eru um það bil að fara að gisna.
Geymsla: Það er mjög gott að frysta spergilkál.

Blaðkál.
Notkun: Blaðkál er mjög fljótvaxið og er hæft til uppskeru á undan flestum öðrum matjurtum, sem ræktaðar eru í heimilisgörðum. Kálið er mikið notað í hrásalöt.
Viðurkenndur stofn: Hypro.
Vaxtarhraði frá gróðursetningu: Um 25 vaxtardagar undir trefjadúk eða plasti, en um 35 vaxtardagar á bersvæði.
Uppeldi: Við góð skilyrði tekur uppeldi í gróðurhúsi eða gróðrarreit 3-4 vikur. Til að draga úr njólamyndun er gott að hafa einhvern tíma 20-22°C hita á plöntunum. Það er unnt að sá fræinu beint út í garð, en þá seinkar uppskerunni.
Áburðarþörf: 1 kg Blákorn á 10 m2. Í Blákorni er bór, sem er nauðsynlegur fyrir kál. Vaxtartími er svo stuttur að það er varasamt að nota búfjáráburður vegna sýkingarhættu.
Vaxtarrými: Hæfilegt bil milli raða í beði 25-35 cm og 20-25 cm milli kálplantna í röð.
Kálmaðkur: Maðkurinn sækir í kálið, en það er ekki ráðlegt að verja það með plöntu- varnarefnum, vegna þess hve vaxtartíminn er stuttur.
Gróðurhlífar: Það flýtir fyrir sprettu að leggja trefjadúk yfir beðin og taka hann af þegar dúkurinn virðist liggja of þungt á plöntunum í rigningu. Ef dúkurinn liggur of lengi á kálinu spillir það útliti kálsins.
Upptaka: Öll plantan, sem er ofar moldu er notuð. Stöngullinn er skorinn niður við jörð. Hæfilegur uppskerutími er þegar kálið er 350-400 g að þyngd. Það verður gróft og fer að njóla ef það er látið vaxa lengur.
Geymsla: Kálið geymist aðeins í fáa daga eftir upptöku. Best er að nota það strax eftir upptöku.